Mikil ólga í Ekvador

08.10.2019 - 08:56
epa07904574 A man runs away as tear gas is fired during clashes in Quito, Ecuador, 07 October 2019. The recent wave of protests comes in the wake of new measures adopted by the Government of Ecuadorian President Lenin Moreno, which include the lifting of fuel subsidies and cuts in public spending.  EPA-EFE/JOSE JACOME
Táragasi var beitt gegn mótmælendum í Quito í gær. Mynd: EPA-EFE - EFE
Lenin Moreno, forseti Ekvador, sakaði í gærkvöld pólitíska andstæðinga um að ætla að reyna að ræna völdum í landinu. Hann sagði að ríkisstjórn landsins hefði tímabundið og af öryggisástæðum flutt starfsemi sína frá höfuðborginni Quito til hafnarborgarinnar Guayaquil.

Mikil ólga hefur verið í Ekvador síðan Moreno ákvað að hætta við niðurgreiðslur á eldsneyti til að tryggja lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna bágborins efnahagsástands, en eldsneyti í landinu hækkaði um allt að 120 prósent 3. þessa mánaðar.

Mikil mótmæli hafa verið í Ekvador síðustu daga og hefur einn látið lífið og tugir meiðst í átökum mótmælenda og öryggissveita. Hátt í 500 hafa verið handteknir. 

Moreno segir að stuðningsmenn forvera síns, Rafaels Correa, hafði laumað sér inn í raðir mótmælenda í þeim tilgangi að hvetja til valdaráns. Correa sagði á Twitter í gær að Moreno væri búinn að vera og hvatti til að boðað yrði til kosninga í landinu.

Boðað hefur til mótmælafundar í höfuðborginni Quito á morgun. Starfsemi olíuvinnslustöðva hefur raskast í mótmælunum að undanförnu. Hefur framleiðslan minnkað um allt að 70.000 tunnur á dag, en heildarframleiðslan nemur um 550.000 tunnum á dag við venjulegar aðstæður. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi