Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikil ófærð á Vestfjörðum

16.03.2020 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Vegir á Vestförðum eru víðast hvar ófærir eða lokaðir. Snjóflóð hafa fallið á Súðavíkurhlíð og Flateyrarveg. Mun betri færð er í öðrum landshlutum.

Vegurinn um Ísafjarðardjúp er ófær eða þungfær. Vegagerðin telur að ekki viðri til moksturs þar fyrr en í fyrsta lagi á miðvikudag. Það á við um fleiri vegi á Vestfjörðum gangi veðurspáin eftir.

Það er lokað á Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdán. Klettsháls er ófær og Steingrímsfjarðarheiði lokuð. Flateyrarvegur og Súðavíkurhlíð eru lokuð vegna snjóflóðahættu. Snjóflóð hafa fallið á báðum stöðum, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Það er skafrenningur á Holtavörðuheiði og á vegum á Snæfellsnesi. Í öðrum landshlutum er þokkalegasta vetrarfærð. Á Vatnsskarði, Siglufjarðarvegi og Grenuivíkurvegi er einbreitt á köflum eða þrengsli vegna snjóa.

Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru fær, sem og helstu fjallvegir á Austurlandi. Þjóðvegur eitt á Suðurlandi er snjólaus, en hálkublettir á hluta leiðarinnar.