Mikil óánægja með Bergþór sem nefndarformann

14.09.2019 - 20:36
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og einn Klausturþingmanna, tekur að nýju við formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á þriðjudag. Mikil óánægja er með það meðal þingmanna, jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu. Stjórnarandstöðu þingmenn telja Pírata vera að færa Miðflokknum vopnin upp í hendurnar með því að láta Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur vera formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Bergþór neyddist í febrúar til að láta af formennsku að kröfu annarra nefndarmanna en mikið uppnám var á nefndarfundi þegar Bergþór sneri til baka eftir nokkurra vikna leyfi í kjölfar Klaustursmálsins og settist aftur í stól nefndarformanns.

Nefndin var óstarfhæf um hríð því Miðflokkurinn neitaði að fallast á kröfu stjórnarandstöðuflokka um að skipta um nefndarformann og vísuðu þingmenn meirihlutans í nefndinni auk Bergþórs og Karls Gauta frá tillögu minnihlutans um að Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar tæki við formennsku og úr varð að Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stýrði nefndinni. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, hafði þarna gengið til liðs við hinar konurnar í nefndinni þannig að úr varð nýr meirihluti og minnihluti.

Samkvæmt samkomulagi meiri- og minnihluta fer stjórnarandstaðan með meirihluta í þremur þingnefndum. Stjórnarandstöðuflokkarnir sömdu um skiptingu sín á milli og var niðurstaðan að Miðflokkur stýrði umhverfis- og samgöngunefnd. 

Mikil óánægja er meðal nefndarmanna í umhverfis- og samgöngunefnd, samkvæmt heimildum fréttastofu með að Bergþór sé að taka aftur við formennsku. Setji minnihlutinn sig upp á móti því túlkar meirihlutinn það sem svo að ekkert samkomulag sé um formennsku í nefndum hjá minnihlutanum og tekur þá yfir formennsku í öllum nefndum. 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Silfrið

Þegar hefur verið tilkynnt að Helga Vala Helgadóttir tekur við formennsku í velferðarnefnd og Píratar, sem fara með formennsku í stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd, hafa ákveðið að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir stýri henni.

Samvæmt heimildum fréttastofu er mikil óánægja meðal þingmanna minnihlutans um formennsku Þórhildar Sunnu af þeim sökum að í maí komst siðanefnd Alþingis að þeirri niðurstðöðu að hún hefði gerst brotleg gegn siðareglum með ummælum sínum um akstursgeiðslur Ásmundar Friðrikssonar.

Þeir sem fréttastofa ræddi við segja að með því að taka við formennskunni þrátt fyrir niðurstöðu siðanefndar séu Píratar að færa vopn í hendur Miðflokksmanna og senda þau skilaboð að siðanefndarálit hafi engar afleiðingar. Því sé erfiðara að gera kröfu á Miðflokkinn að Bergþór, né aðrir Klausturþingmenn, stýri ekki nefnd vegna álits siðanefndar. Viðmælendur fréttastofu segja að þrátt fyrir að brotin séu gjörólík í eðli sínu ættu þau bæði að sjá sóma sinn í því að stíga til hliðar og sýna þannig að álit siðanefndar hafi einhverjar afleiðingar.