Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikil fjölgun flóttamanna sláandi

epa07654401 An Afghan girl, who was displaced internally due to conflict and disaster, walks at a temporary shelter provided by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) on the outskirts of Herat, Afghanistan, 17 June 2019. The United Nations International Children's Emergency Fund (UNICEF) Afghanistan has launched its Humanitarian Action for Children (HAC) 2019 appeal, which highlights a total of 6.3 million people in dire need of humanitarian support, including 3.8 million children. UNICEF is appealing for 50 million US dollar to provide much needed lifesaving support to more than 570,000 children with basic health and nutrition packages, water, sanitation and hygiene, education and child protection support.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fleiri voru á flótta í fyrra en nokkru sinni frá stofnun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um miðja síðustu öld. Mestu munar um fólksflótta frá Venesúela. Ingunn Sigríður Árnadóttir, lögfræðingur hjá umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Norður-Evrópu, segir þessa fjölgun sláandi.

Rúmlega sjötíu milljónir eru á flótta og flóttafólki fjölgar enn ár frá ári, þrátt fyrir mikla fjölgun eftir að stríð braust út í Sýrlandi fyrir tæpum áratug. Þetta kemur fram í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem birt var í dag. Einn af hverjum átta jarðarbúum er á flótta. Sýrlendingar eru enn fjölmennastir í hópi þeirra sem þurfa að flýja heimili sín og illa gengur að gera fólki kleift að snúa aftur. Róhingjar flýðu ofsóknir í Mjanmar til Bangladess en geta ekki snúið heim og þar eru enn mörg hundruð þúsund manns í einum stærstu flóttamannabúðum heims. Flestir eru á flótta innan eigin lands, rúmar fjörutíu milljónir en börn eru helmingur alls flóttafólks í heiminum.

Mynd: Jón Þór Víglundsson / RUV

Hæstu tölur sem flóttamannastofnunin hefur séð

Ingunn Sigríður Árnadóttir, lögfræðingur hjá umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Norður-Evrópu, segir þessa fjölgun sláandi. „Þetta eru hæstu tölur sem flóttastofnunin hefur séð á þeim sjötíu árum sem hún hefur starfað, og þetta eru þá 70,8 milljónir sem eru á flótta eða vergangi í heiminum. Og það er náttúrulega mjög miður að sjá þessa tölu hækka með hverju árinu og þá sérstaklega hafa þær hækkað hratt síðastliðin ár, en þetta er til að mynda tvöföldun á tölunum fyrir tuttugu árum,“ segir Ingunn.

epa07652079 A migrant walks at a tent camp in Bihac, Bosnia and Herzegovina, 16 June 2019. According to reports, Bosnian authorities moved 282 migrants and refugees residing in private accommodation in Bihac to a tent camp identified by the Bihac City Council as 'Vucjak'. The UN office in Bosnia and Herzegovina on 14 June expressed concern over the decision, saying the new location is 'entirely inadequate for the purpose of accommodating people'.  EPA-EFE/FEHIM DEMIR
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Eins og öll þjóðin myndi neyðast til að flýja

Mestu munar um fólksflótta frá Venesúela en yfir fjórar milljónir yfirgáfu heimili sín í fyrra. Það er mesti fólksflótti af svæðinu í marga áratugi. Mörg hundruð þúsund eru á flótta innan landsins. Flestir sem fara út fyrir landsteinana fara til nágrannaríkisins Kólumbíu, um hálf milljón til Perú en 290 þúsund til Bandaríkjanna. Þarlend stjórnvöld hafa brugðist við komu flóttafólks með því að lýsa yfir neyðarástandi við landamærin. Talið er líklegt að mun fleiri séu á flótta frá Venesúela en fram kemur í skýrslunni. „Á árinu 2018 þá eru þetta rúmlega 340 þúsund manns sem sóttu um vernd í öðrum ríkjum og þá er þetta svo gott sem að öll íslenska þjóðin myndi fara og þurfa að neyðast til að flýja Ísland og sækja um vernd annars staðar á aðeins einu ári og þetta er aðeins brotabrot af þeim fjórum milljónum sem hafa flúið landið og þetta er meðal þeirra stærstu flóttamannavandamála sem við sjáum í dag. “