Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikið í húfi vegna Hólmadrangs

17.05.2019 - 21:00
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Allir hafa reynt að leggja sitt að mörkum segir starfsmaður rækjuvinnslunnar Hólmadrangs á Hólmavík. Fyrirtækið hefur átt í fjárhagskröggum en framkvæmdastjórinn hefur trú á því að þeir leysist farsællega.

Meðal stærstu vinnustaða Strandabyggðar

Rækjavinnslan Hólmadrangur er meðal þriggja stærstu vinnustaða Strandabyggðar. „Við erum með 21 starfsmann í vinnu og þar eru fjölskyldur á  bakvið og afleidd störf og við erum að kaupa þjónustu iðnaðarmanna og borgum útsvar, aðstöðurgjöld og fasteignagjöld svo þetta er mikilvægur rekstur hér í sveitarfélaginu mjög svo,“ segir Sigurbjörn Rafn Úlfarsson, framkvæmdastjóri Hólmadrangs.

Hafa trú á því að það leysist úr fjárhagskröggum

Rækjuvinnslustöðin er ein af fimm sem eru eftir á landinu og hefur að undanförnu verið í fjárhagskröggum. Eftir greiðslustöðvun og endurskipulagningu fyrirtækisins hefur það fengið heimild til að leita nauðasamninga og á nú í viðræðum við kröfuhafa. „Við ætlum að halda áfram og höfum bara góða trú á því enda höfum við bara keyrt eftir stífu plani og sem hefir gengið eftir og höfum fulla trú á því að það endi farsællega með samningum við kröfuhafa,“ segir Sigurbjörn.

Allir leggjast á eitt

„Við höfum bara reynt að standa okkar vakt. Mikil vinna og við höfum reynt að gera okkar besta. Allir reynt að leggja sitt af mörkum. Og staðið saman mjög þétt,“ segir Hafdís Gunnarsdóttir, starfsmaður Hólmadrangs. 

Vinnslan vel staðsett á alþjóðavísu

99 prósent af rækjunni sem er fullunnin á Hólmavík er innflutt og jafn stórt hlutfall er flutt úr landi. Sigurbjörn segir rækjuvinnsluna vera í fremstu röð á heimsvísu, með mikilvægar vottanir og að staðsetningin sé góð á alþjóðavísu. „Við erum þannig tengd við Evrópu markaði að við getum tekið við vörum frá Kanada, jafnvel Alaska, Barentshafi, Noregi og Rússlandi og við getum framleitt vöru sem á greiða leið inn á markaði í Evrópu,“ segir Sigurbjörn.

Mikið í húfi

Það er mikið í húfi en í Strandabyggð búa um 440 og hefur farið fækkandi á síðustu árum. Sveitarstjórn fylgist grannt með þróun mála. „Það væri ólýsanlegt högg fyrir sveitarfélagið ef þetta færi illa en ég hef fulla trú á því að þessir samningar nú standa yfir skili því að fyrirtækið haldi áfram rekstri,“ segir Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð.