Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikið annríki hjá hálendisvakt Landsbjargar

17.07.2019 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Mun meira annríki hefur verið hjá hálendisvakt Landsbjargar það sem af er sumri, en á sama tíma í fyrra. Sjálfboðliðar frá 30 björgunarsveitum sinna þessum verkefnum sem eru allt frá því að leita að fólki, sem villist í þoku, í að búa um fótbrot.

Hálendisvaktin sinnir verkefnum út frá fjórum bækistöðvum. Það eru hópar á þremur stöðum á hálendinu; í Landmannalaugum, Nýjadal og við Öskju, og auk þess er hópur í Skaftafelli.

Umtalsvert fleiri verkefni en í fyrra

Jónas Guðmundsson, starfsmaður Landsbjargar, segir að sumarið hafi eiginlega farið af stað með hvelli. Hálendisvaktin hafi þurft að sinna fjölmörgum verkefnum hingað til. „Og bara umtalsvert meira en í fyrra. Í fyrra var reyndar blautt, kalt og leiðinlegt og færri sem fóru upp á hálendið. En þrátt fyrir það þá er þetta óvenju kraftmkil byrjun sumars. Fólk er að villast, við erum búin að vara með allmörg fótbrot og þrátt fyrir að það sé bara miður júlí, þá erum við búin að fá þyrluna til okkar og erum nokkrum sinnum búin að fá sjúkrabíla."

Náið samstarf við lögregluna

Og hann segir mest að gera á Fjallabaksleið, enda langflestir ferðamenn þar á ferðinni. Allt að 40 manns eru á vakt á hálendinu í einu, en um 30 björgunarsveitir Landsbjargar skipta verkefninu með sér. „Verkefnin koma til okkar ýmist frá lögreglu eða neyðarlínu. Ef þau koma frá öðrum leiðum þá erum við í samskiptum við lögreglu áður en við leggjum af stað í verkefnin.“

Segir fulla þörf fyrir þessa þjónustu

Jónas segir alveg ljóst að þessu starfi verði haldið áfram næstu árin, enda sé þörfin mikil. „Við erum reyndar alltaf að meta staðsetningar og þess háttar, en það er alveg full þörf fyrir þetta og við heyrum mikið þakklæri frá landvörðum og öðrum starfsmönnum þjóðgarða og svo framvegis."