Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikið álag á sjómenn í brælum og vondu veðri

06.03.2020 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: svn.is/Kristján Birkisson
Tíðarfarið í vetur hefur reynst sjómönnum afar erfitt, miklar brælur og sjólag oft með versta móti. Skipstjórinn á frystitogaranum Blæng segir mikið álag á áhöfnina og menn séu oft afar þreyttir eftir tæpan mánuð á sjó í vonskuveðri.

Þetta hefur varað í óvenju langan tíma, en síðan í byrjun desember hefur vonskuveður verið á miðunum við landið og hver brælan rekið aðra og gert sjómönnum lífið leitt.

„Þetta er miklu verra en síðustu ár“

„Það er búið að vera mjög slæmt í desember, janúar og febrúar,“ segir Bjarni Ólafur Hjálmarsson, skipstjóri á frystitogaranum Blæng frá Neskaupstað. „Mjög óvenjulegt hvað þetta er langur tími og kröftugar lægðir. Þetta er miklu verra en síðustu ár. Síðast '92-'94 eitthvað svoleiðis, sem maður man eftir einhverju svipuðu. En samt ekki svona slæmu.“

Hvergi hægt að komast í skjól undan veðrinu

Fram að þessu hafi þeir oftast getað flúið brælur og vont veður yfir veturinn og fært sig í skjól á önnur mið. En í vetur hafi það stórar lægðir gengið yfir að erfitt sé að komast nokkursstaðar í skjól. „Yfirleitt getur maður verið í þokkalegu veðri annaðhvort sunnan við land eða norðan við land. En því hefur ekki verið að heilsa núna. Það er helst fyrir austan land, en þar kannski viljum við síst vera út af þorski. Við viljum síst veiða þorsk.“  

Helmingi meira álag en í venjulegum túrum

Og Bjarni segir mikið álag á menn um borð í sífelldum brælum og vondu sjólagi. „Sérstaklega á menn sem vinna allan sólarhringinn niðri á vinnsludekki og svona. Menn eru í 20 til 26 daga túrum og þetta er náttúrulega bara helmingi meira álag en í venjulegum túrum. Þetta eru því erfiðir túrar, það er alveg óhætt að segja það. Og menn eru vel þreyttir þegar þeir koma í land.“

Hér að neðan er umfjöllun um tíðarfarið á Facebooksíðu Síldarvinnslunnar og myndir Kristjáns Birkissonar, háseta á Blæng NK, úr síðustu veiðiferið togarans.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV