Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mike Pompeo: Árásir voru yfirvofandi

03.01.2020 - 15:45
Mynd með færslu
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd:
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að íranski hershöfðinginn Qasem Soleimani hafi verið að skipuleggja árásir sem hefðu skapað hættu fyrir bandaríska ríkisborgara í Miðausturlöndum. Þessar árásir hafi verið yfirvofandi og við því hafi orðið að bregðast.

Soleimani stýrði úrvalssveit Byltingarhersins og var talinn vera annar valdamesti maður Írans. Hann féll í nótt þegar Bandaríkjaher gerði drónaárás á bílalest hans skömmu eftir að hann kom til Bagdad í Írak. Pompeo sagði í viðtali við CNN í dag að ef árásirnar sem hershöfðinginn hafði skipulagt hefðu orðið að veruleika hefðu þær stefnt lífi tuga eða jafnvel hundraða Bandaríkjamanna í hættu.

Þjóðarleiðtogar hafa hvatt Bandaríkjamenn og Írana til að sýna stillingu eftir árásina í nótt til að stefna ekki öryggi og stöðugleika í Miðausturlöndum í hættu. Að sögn rússnesku fréttastofunnar Interfax ræddu Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Emmenuel Macron, forseti Frakklands saman í síma í dag um stöðuna sem upp er komin. Haft er eftir Pútín að hann óttist að árásin geti valdið því að ástandið í heimshlutanum eigi eftir að versna til muna. Í Frakklandi er haft eftir Macron að hann hafi hvatt til þess að allt yrði gert til að koma í veg fyrir að ósættið stigmagnaðist.

Trump Bandaríkjaforseti, sem fyrirskipaði árásina, sagði á Twitter í dag að Qasem Soleimani hefði beint og óbeint staðið að dauða milljóna manna.