Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mig langar að sjá hana aftur og aftur“

Mynd: Bergmál / RÚV

„Mig langar að sjá hana aftur og aftur“

08.12.2019 - 13:02

Höfundar

„Þetta eru svona perlur sem hann þræðir upp á þráð og hann notar þessi tímamót á fallegan hátt sem aðdragandi jóla er,“ segir Viðar Eggertsson um kvikmyndina Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson sem Viðar langar að sjá aftur og aftur.

Kvikmyndin Bergmál er nýjasta mynd leikstjórans Rúnars Rúnarssonar og var frumsýnd í nóvember síðastliðnum. Bergmál er af mörgum talin óvenjulegasta mynd Rúnars til þessa en jafnframt sú aðgengilegasta. Hann á að baki myndirnar Eldfjall og Þresti, sem og stuttmyndina Síðasta bæinn sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna á sínum tíma. Bergmál er ofið úr 58 örsögum úr íslensku hversdagslífi í kringum jól og áramót. Guðrún Sóley Gestsdóttir tók á móti þeim Birni Jóni Sigurðssyni sviðslistamanni, Báru Huld Beck blaðamanni og Viðari Eggertssyni leikstjóra í Lestarklefanum, umræðuþætti um listir og menningu og ræddi meðal annars myndina Bergmál.

„Mér finnst formið alveg yndislegt. Þetta stutta örsagnaform, með stuttum senum sem standa alveg sjálfstæðar. Formi[ býður upp á svo þægilega bíóupplifun. Það þarf ekki að hengja sig á einhvern einn söguþráð sem manni finnst kannski mistrúverðugur. Ef maður lendir í álíka senu, þá getur maður bara beðið í smástund og fengið næsta atriði,“ segir sviðslistamaðurinn Birnir Jón um Bergmál. Það var svo skemmtilegt hvernig áttin var skýr en síðan tók hún oft snúning. Líkt og með atriðið þar sem Friðgeir Einarsson leikari er að borða jólakvöldverðinn, með útvarpið stillt í sjónvarpinu og örbylgjumat. Maður hugsaði að þetta væri hámark einmanaleikans en síðan er persónan bara kampakát með aðstæður. Þarna er tekinn snúningur á það sem maður hélt að væri verið að segja,“ segir Birnir.

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Birnir Jón, Bára Huld og Viðar Eggertsson heimsóttu Guðrúnu Sóleyju í Lestarklefann.

Blaðamaðurinn Bára Huld Beck var einnig hrifin af myndinni. „Mér fannst mjög gaman að horfa á þessa mynd. Ég fór á hana með kærastanum mínum sem er bókmenntafræðingur en það er einmitt gott að tala um hana á eftir. Þetta er svona týpisk mynd sem maður þarf að deila með einhverjum. Mér leið svona eins og ég hafi verið að horfa á áramótaskaupið, þegar maður er svona að rifja upp öll atriðin í skaupinu með fjölskyldu og vinum,“ segir Bára Huld og er staðráðin í því að sjá myndina aftur. „Það var mikilvægt að sjá hana í bíó en ég ætla að sjá hana aftur af því að það er svo mikið sem kemur á óvart í henni að maður sér það mögulega betur í annað sinn. Það eina sem mér fannst vanta, ég er nefnilega utan af landi, það var landsbyggðin. Annars fannst mér þetta allt mjög áhugavert,“ segir Bára Huld.

„Þetta er svona eins og þjóðfélagið er, við erum svo mörg og deilum svo mismunandi skoðunum,“ segir Viðar Eggertsson leikstjóri um Bergmál og nefnir að Bergmál hafi minnt hann á mynd Ásgríms Sverrissonar, Dagur í lífi þjóðar. „Þetta eru svona perlur sem hann þræðir upp á þráð og hann notar á fallegan hátt þessi tímamót sem aðdragandi jóla er. Jólahátíðin sem er oft svo viðkvæm fyrir íslenska þjóð og svo koma áramót sem margir verða mjög viðkvæmir þegar þeir skilja við eitthvað og annað nýtt byrjar. Hann gerir því mjög fallega skil í lok myndarinnar og ég tími ekki að segja frá því fyrir þá sem eiga eftir að horfa en það er mjög fallegt hvernig Rúnar byrjar nýtt ár í enda myndarinnar. Nýtt upphaf,“ segir Viðar og segist hafa saknað þess að sjá ekki meira frá Rúnari. Hann er hins vegar ánægður með Bergmál. „Mig langar að sjá hana aftur og aftur. Það sem er svo sérstakt við þessa mynd að að þetta eru 58 sögur á 79 mínútum og vélinni er stillt upp þannig að það er bara eitt sjónarhorn. Það er pínu eins og við séum stödd í leikhúsi, maður fær sviðið allt og þarf að ákveða hvar maður hefur augun,“ segir Viðar Eggertsson.

Rætt var um Bergmál í Lestarklefanum og má sjá og hlýða á umræðuna í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Bergmál, bráðnandi jöklar og upplestrar

Kvikmyndir

Kvikmynd sem rís og hnígur líkt og togari í ólgusjó

Kvikmyndir

„Vissi ekki að þú gætir verið fyndinn, Rúnar"

Kvikmyndir

Ljóðræn jólamynd Rúnars keppir í Locarno