Miðlungsuppfærsla í nostalgíuleikhúsinu

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Miðlungsuppfærsla í nostalgíuleikhúsinu

27.02.2020 - 14:56

Höfundar

Útsending, leikgerð unnin upp úr kvikmyndinni Network, var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu síðasta föstudag á stóra sviði þjóðleikhússins. Pálmi Gestson stóð sig vel í aðalhlutverkinu en sýningin var ekki án vankanta að mati gagnrýnanda Víðsjár.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Þjóðleikhúsið sýnir tvær leikgerðir eftir leikskáldið Lee Hall þetta leikár. Lee Hall er okkur Íslendingum kannski helst kunnur fyrir Billy Elliott sem sló í gegn í Borgarleikhúsinu fyrir nokkrum árum, en kannski hugsaði Ari Matthíasson þáverandi þjóðleikhússtjóri með sér þegar hann sá miðasölutölur að leikgerðir Lee Hall upp úr þekktum kvikmyndum yrðu gullnáma. Nú hef ég áður fjallað um Shakespeare verður ástfanginn sem sýnt var á stóra sviði Þjóðleikhússins, sem Lee Hall skrifaði leikgerð upp úr fyrir West End, en nú er komið að Útsendingu, sem byggir á kvikmyndinni Network frá árinu 1976 sem þetta sama leikskáld snaraði á svið fyrir breska þjóðleikhúsið og hefur nú ratað á stóra svið hins íslenska þjóðleikhúss.

Það er í sjálfu sér ekkert að því að setja upp leiksýningar sem byggjast á klassískum kvikmyndum, þótt sviðsuppfærslan standist kvikmyndinni sjaldan snúning, en leikhússtjórar verða að gæta hófs, kannski var nóg að setja upp Einræðisherrann eftir Charlie Chaplin, auðvitað selur nostalgía leikhúsmiða en leikhúsið við Hverfisgötu heitir ekki nostalgíuleikhúsið heldur Þjóðleikhúsið og kannski ætti það frekar að setja upp fleiri ný íslensk verk, eða fleiri klassísk íslensk verk, eða jafnvel klassísk verk frekar en leikgerðir upp úr bandarískum bíómyndum? Hlutfallið af leiksýningum sem eru ýmist byggðar á bókum eða kvikmyndum er býsna hátt.

Geðrof breytist í áhorf

Network er eins og áður sagði mynd frá 1976, og er af sumum talin meðal bestu kvikmyndahandrita sem skrifuð hafa verið. Leikgerð Lee Hall er nokkuð trú handriti Paddy Chayefskys, og þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar ágæt. Titillinn er til að mynda skemmtilegur, í leikhúsinu erum við í beinni útsendingu, en í árdaga sjónvarpsins var svo litið á að sá miðill ætti meira skylt við leikhúsið en kvikmyndina, sem er kannski nokkuð rétt. Í nokkrum atriðum verða sætaraðir Þjóðleikhússins í það minnsta að sjónvarpsáhorfendasal á snurðulausan máta.

Guðjón Davíð Karlsson er leikstjóri sýningarinnar, Egill Eðvarðsson sá um leikmynd, Helga I. Stefánsdóttir um búningana sem allir voru í stíl áttunda áratugarins, tónlistina annaðist Eðvarð Egilsson og um myndbönd og grafík, sem léku stóran þátt, sá Ólöf Erla Einarsdóttir.

Leikritið líkt og kvikmyndin segir frá Howard Beale, fréttaþul og ekkli sem er rekinn úr starfi sínu vegna slæms áhorfs, og er vægast sagt tæpur andlega. Í því sem á að vera síðasta útsending Beales hótar hann sjálfsmorði í beinni og svo loks þegar hann fær tækifæri til að draga hótunina til baka og kveðja með reisn fer hann með eldræðu um hnignun samfélagsins. Í fyrstu er samstarfsfólk hans hneykslað en þegar áhorfstölur skila sér inn breytist hljóðið í yfirmönnum og framleiðendum, og innan skamms er Howard kominn með heilan þátt þar sem hann fær að predika að vild, og jafnvel öskra af reiði. Howard er greinilega andlega vanheill, en þráir að vera í sjónvarpinu og fjölmiðlasamsteypan er reiðubúin að nýta sér þennan veika einstakling svo lengi sem það skilar áhorfi. Ein af stóru siðferðisspurningum sýningarinnar er því, er allt leyfilegt fyrir áhorf?

Leiksigur í hlutverki Howards

Ef verið væri að skrifa þetta verk í dag væri kannski sögusviðið veffjölmiðill sem er til í að krydda fréttir duglega til að fá smelli, eða kannski deild innan stærri samfélagsmiðla-samsteypu sem er reiðubúin að gera hvað sem er til að halda fólki límdu við símaskjái og safna lækum. Fjölmiðlalandslagið sem Útsending lýsir er horfið í dag, sjónvarpið er til dæmis ekki sá miðlægi miðill sem það eitt sinn var. Gullöld fréttaþularins lokið.

Það sem á kannski enn þá erindi við samtímann er offlæði upplýsinga og neikvæðra frétta sem hellist yfir okkur á hverjum degi, frétta sem við getum ekkert gert í og fylla okkur ýmist reiði eða vanmáttartilfinningu. Við þeim er ekkert svar, engin hugmyndafræðileg lausn og satíra á borð við Útsendingu er heldur ekki að reyna að selja slíkt, nema undir lokin í klunnalegri senu sem hefði alveg mátt sleppa úr leikritinu.

Pálmi Gestsson leikur Howard fantavel, og ég hef sjaldan séð hann eins góðan. Hann nær að miðla til áhorfenda allri örvæntingunni, bræðinni og þreytunni sem hlutverkið kallar eftir, og það var stórskemmtilegt að fylgjast með honum. Því miður eru ekki margir aðrir leikarar í verkinu sem hægt er að hrósa svona vel. Gunnar Smári Jóhannesson stóð sig ágætlega sem ungur fréttasláni sem fær aldrei tækifærið sem hann þarfnast, og fréttastofuteymið sem Arndís Hrönn, Ólafía Hrönn, Baldur Trausti, Edda Arnljótsdóttir og Hallgrímur Ólafsson mynda er ágætt í sínum hlutverkum, en stærri hlutverk á borð við framleiðandann Díönu Christensen og stjórnandann Frank Hackett verða býsna flatneskjuleg í meðförum Birgittu Birgisdóttur og Atla Rafns Sigurðarsonar. Það er eins og Atla vanti sjálfstraustið til að túlka þennan kaldlynda bissnessmann, og Birgitta er því miður allt of stirð. Svo stirð að stundum verður erfitt að fylgjast með.

Ekki augljóst erindi

Sviðsetningin er á köflum hugmyndarík og skemmtileg, skjátækni og myndavélar eru nýttar til að sýna okkur atburðarásina frá fleiri sjónarhornum, og það skilar sér skemmtilega í senum á borð við þær þegar Birgitta og Þröstur Leó rölta saman utan sviðs í fylgd myndavélanna og þegar Arnari Jónssyni bregður fyrir í hlutverki forstjórans Arthurs Jensen, en hann og Pálmi áttu saman einkar góða senu. Í sýningu sem snýst um sjónvarpsmiðilinn hefði þó mátt nýta þessa tækni enn meira, sér í lagi fyrir hlé. En það er sjarmi í skítugri sviðsmyndinni og sígarettureykurinn er góð viðbót sem setur mann í fíling.

Því er ekki auðsvarað hvernig komist var að þeirri niðurstöðu að kvikmyndin Network frá árinu 1976 ætti erindi við áhorfendur Þjóðleikhússins árið 2020. Kannski hefði verkið verið meira spennandi rétt eftir 1986 þegar samkeppnislögmál voru nýbyrjuð að leika eitthvert hlutverk í íslensku sjónvarpi, kannski hefði kvikmyndin Social Network frekar átt erindi í augnablikinu, fyrir þjóð þar sem yfir 90% eru á einhverjum samfélagsmiðli og einungis sjónvarpsviðburðir á borð við Skaupið eða úrslitakvöld Eurovision hafa eitthvert miðlægt hlutverk, eða jafnvel bara heimildarleikhús um veröld áhrifavalda eða upplýsingasöfnun á netinu.

En þó svo sýningin væri ekki alveg í takt við tíðarandann stóð nostalgíuleikhúsið við Hverfisgötu við sitt gagnvart áskrifendum og skilaði af sér góðri sögu, stundum frábærlega, stundum illa, þannig að útkoman varð miðlungs uppfærsla með nokkrum eftirminnilegum atriðum.

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Afstöðulaus endursýning

Leiklist

„Við erum öll orðin sjónvarpsstjórar yfir eigin lífi“