Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Miðflokkurinn mælist næst stærstur

09.10.2019 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með tæpra tuttugu prósenta fylgi og er stærsti flokkur landsins samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Miðflokkurinn mælist með tæplega fimmtán prósenta fylgi og Samfylkingin rúmlega fjórtán prósenta fylgi. Munurinn á fylgi Miðflokksins og Samfylkingarinnar er þó innan skekkjumarka.

Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri skoðanakönnun MMR sem birt var síðdegis. Í greininni sem tengillinn vísar á má sjá hvaða aðferðum var beitt við gerð könnunarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19,8 prósenta fylgi en mældist með 18,3 prósenta fylgi um miðjan síðasta mánuð. Það var lakasta niðurstaða flokksins í skoðanakönnun frá upphafi. Fylgisaukning flokksins milli mánaða er marktæk.

Fylgi flokka í könnun MMR

Könnun MMR 9. október 2019 samanborið við kosningaúrslit 2017.

Sjálfstæðisfl.
25,3%
19,8%
Miðflokkurinn
10,9%
14,8%
Samfylkingin
12,1%
14,1%
Viðreisn
6,7%
11,0%
Vinstri græn
16,9%
10,3%
Framsóknarfl.
10,7%
10,1%
Píratar
9,2%
8,8%
Fl. fólksins
6,9%
5,6%
Sósialistafl.
0%
3,1%
Aðrir
0%
2,4%

Heimild: MMR. Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma. Svarfjöldi: 2.124 einstaklingar, 18 ára og eldri. 30. september til 9. október 2019.

Fylgi Miðflokksins fer úr tólf prósentum í síðustu könnun í 14,8 prósent núna og er það marktæk breyting. Samfylkingin mælist með 14,1 prósent núna en 14,8 prósent í síðasta mánuði. 

Þrír flokkar mælast með það svipað fylgi að ekki er marktækur munur á þeim. Viðreisn mælist með ellefu prósent, Vinstri græn með 10,3 prósent og Framsóknarflokkurinn með 10,1 prósent. Marktækur munur er á fylgi tveggja síðarnefndu flokkanna frá síðustu könnun. Fylgi Vinstri grænna dróst saman um 2,5 prósentustig og fylgi Framsóknarflokksins um tæpt eitt og hálft prósentustig.

Píratar mælast með 8,8 prósenta fylgi, nærri fjórum prósentustigum minna en í síðasta mánuði þegar fylgið mældist 12,4 prósent. Ekki er marktækur munur á fylgi Pírata og Framsóknarflokksins. 

Flokkur fólksins bætir við sig fylgi frá síðustu skoðanakönnun og mælist nú með 5,6 prósent. Það dugir til þingsæta óháð því hvort flokkurinn fengi einhvers staðar kjördæmakjörinn þingmann. Samkvæmt síðustu könnun átti flokkurinn á hættu að detta af þingi.

Sosíalistaflokkur Íslands mælist með 3,1 prósent. Önnur framboð fengju samanlagt um 2,4 prósent atkvæða.