Miðflokkurinn gagnrýndi birtingu álitis

26.03.2019 - 23:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórir þingmenn Miðflokksins gerðu athugasemd við það að til stæði að birta álit siðanefndar Alþingis á vef Alþingis í kvöld Töldu þingmennirnir að fráleitt væri að birta álit áður en frestur til að skila andmælum rynni út. og hins vegar lægju fyrir nýjar og veigamiklar upplýsingar sem sýndu „að mat siðanefndarinnar væri byggt á röngum forsendum.“

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að fallist hafi verið á kröfu þingmannanna og ákveðið að hætta við birtingu greinargerðarinnar. „Engu að síður birti ruv.is frétt um málið klukkan 19:20. Ljóst má vera að Ríkisútvarpið hafi verið upplýst um innihald bréfsins. Pólitískt eðli málsins er nú staðfest enn á ný og þurfti ekki frekari vitnanna við,“ segir í yfirlýsingunni.

Aths: Álit siðanefndar Alþingis var gert opinbert á vef Alþingis í kvöld. Það hefur nú verið fjarlægt. Fréttastofa var beðin um að fjarlægja fréttina um álitið af skrifstofustjóra Alþingis þar sem það hefði verið birt fyrir mistök. Ekki var fallist á beiðni skrifstofustjórans þar sem fréttastofa taldi upplýsingarnar eiga erindi við almenning.  Auk þess hafði þá verið gerð frétt um sama mál á visir.is. 

Í yfirlýsingu þingmannanna segir jafnframt að lög og grundvallarreglur sanngjarnrar málsmeðferðar hafi ítrekaðar verið brotnar við meðferð máls. Forsætisnefnd hafi í heild sagt sig frá málinu og tveir af þremur í siðanefndinni vikið. „Af 10 manns sem upphaflega var boðað að myndu leiða málið til lykta stendur aðeins einn eftir. Sá er fyrrverandi þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar.“ 

Þá segja þingmennirnir að þau fyrirmæli sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi gefið tveimur „ólöglega kjörnum varaforsetum Alþingis“ ráði för án tillits til laga, staðreynda, réttsýni og heiðarlegrar stjórnsýslu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV