Miðflokksmenn í málþófi um þriðja orkupakkann

16.05.2019 - 05:36
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þingmenn Miðflokksins hafa haldið uppi málþófi í alla nótt í seinni umræðum um þingsályktunartillöguna sem liggur fyrir Alþingi um innleiðingu hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins, í samræmi við gildandi samning ESB og EFTA um Evrópska efnahagssvæðið, EES.

Miklar umræður og deilur hafa staðið um málið síðustu vikur. Það var til umfjöllunar í utanríkismálanefnd fram á mánudaginn síðasta, en þá var það tekið úr nefnd og lagt fram til síðari umræðu í þinginu, þrátt fyrir mótbárur þingmanna Miðflokksins, sem sögðu málsmeðferðina óboðlega. Þessu andmæltu formaður og varaformaður nefndarinnar, þær Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Sjálfstæðisflokki, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Vinstri Grænum.

Seinni umræðan hófst á þriðjudag og var fram haldið síðdegis í gær. Klukkan 05.30 að morgni fimmtudags var Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, í pontu og þrír flokksfélagar hans, þeir Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jón Þór Þorvaldsson, biðu þess að komast að. Auk þess var Birgir Þórarinsson skráður fjórði maður á mælendaskránni, til að flytja sína fjórðu ræðu um málið, þótt hann væri enn að svara andsvörum flokksfélaga síns Bergþórs Ólasonar við þeirri þriðju.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi