
Tyrkir og bandamenn þeirra gerðu áhlaup á borgina í dag og náðu þegar valdi á nokkrum hverfum borgarinnar. Samkvæmt heimildum Sýrlensku mannréttindavaktarinnar, sem staðsett er í Bretlandi, hefur verið hart barist í borginni. Fleiri en 1.500 manns úr sveitum Kúrda hafa fallið síðan tyrkneski herinn hóf innrás sína í janúar og yfir 200 þúsund manns hafa flúið borgina síðustu þrjá daga vegna vaxandi átaka.
Földu sig í kjöllurum
Sýrlenskar uppreisnarsveitir, hliðhollar Tyrkjum, segjast hafa ráðist inn í borgina bæði frá austri og vestri. Þaðan hafi þeir náð valdi á hverfunum Ashrafieh og Jamiliyyeh. AFP fréttastofan hefur eftir borgarbúa að íbúar Afrin hafi falið sig í kjöllurum en heyrt vel í átökunum utandyra.
Tyrkneski herinn hefur farið hratt yfir yfirráðasvæði Kúrda í kringum Afrin. Stjórnvöld í Tyrklandi ákváðu að ráðast á YPG, Þjóðvarðsveit Kúrda, sem þau telja vera hryðjuverkasamtök og hernaðararm Verkamannaflokks Kúrda, PKK.