Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Miðborg Afrin „algjörlega“ sigruð

18.03.2018 - 08:42
Erlent · Afrin · sýrland · Tyrkland
epa06603739 Internally displaced people from various areas under YPG control, arrive to the recently captured by the Free Syrian Army village of Qestel Cindo, Afrin, 14 March 2018.  According to media reports, the Turkish army and its allied Syrian
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sýrlenskar uppreisnarsveitir hafa, með hjálp tyrkneska hersins, náð „algjöru“ valdi á miðborg Afrin. Þetta hefur fréttastofa AFP eftir Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta. Meirihluti borgarinnar er nú á valdi Tyrkja og bandamanna þeirra, en borgin hefur mátt þola umfangsmiklar sprengjuárásir undanfarna daga. Þjóðvarðsveit Kúrda, YPG, hörfaði þegar uppreisnarsveitirnar náðu valdi á miðborginni, er haft eftir borgarbúa í Afrin.

Tyrkir og bandamenn þeirra gerðu áhlaup á borgina í dag og náðu þegar valdi á nokkrum hverfum borgarinnar. Samkvæmt heimildum Sýrlensku mannréttindavaktarinnar, sem staðsett er í Bretlandi, hefur verið hart barist í borginni. Fleiri en 1.500 manns úr sveitum Kúrda hafa fallið síðan tyrkneski herinn hóf innrás sína í janúar og yfir 200 þúsund manns hafa flúið borgina síðustu þrjá daga vegna vaxandi átaka.

epaselect epa05912816 Turkish President Recep Tayyip Erdogan greets his supporters during a rally after referendum victory, at the Presidential Palace in Ankara, Turkey, 17 April 2017. Media reports Turkish President Erdogan won a narrow lead of the &#039
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Mynd: EPA
Erdogan Tyrklandsforseti

Földu sig í kjöllurum

Sýrlenskar uppreisnarsveitir, hliðhollar Tyrkjum, segjast hafa ráðist inn í borgina bæði frá austri og vestri. Þaðan hafi þeir náð valdi á hverfunum Ashrafieh og Jamiliyyeh. AFP fréttastofan hefur eftir borgarbúa að íbúar Afrin hafi falið sig í kjöllurum en heyrt vel í átökunum utandyra.

Tyrkneski herinn hefur farið hratt yfir yfirráðasvæði Kúrda í kringum Afrin. Stjórnvöld í Tyrklandi ákváðu að ráðast á YPG, Þjóðvarðsveit Kúrda, sem þau telja vera hryðjuverkasamtök og hernaðararm Verkamannaflokks Kúrda, PKK. 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV