Hælisleitendur frá Rómönsku-Ameríku sem komust yfirlandamærin frá Mexíkó til Bandaríkjanna í ágúst. Mynd: EPA-EFE - EFE
Mexíkómenn sem leita hælis í Bandaríkjunum kunna að verða sendir til Gvatemala samkvæmt umdeildum samningi Bandaríkjanna og Gvatemala. Ráðuneyti heimavarna í Bandaríkjunum greindi frá þessu í morgun.
Í samkomulaginu er Gvatemala skilgreint sem öruggt þriðja land sem gert hefur Bandaríkjamönnum keift að senda þangað hælisleitendur frá El Salvador og Hondúras.
Alþjóðleg mannréttindasamtök hafa fordæmt þann gjörning, en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti heimavarna í Washington geta nú hælisleitendur frá Mexíkó bæst í þennan hóp og óskað verndar í Gvatemala.
Mexíkóska utanríkisráðuneytið kveðst ekki sammála túlkun bandarískra ráðamanna og segir að frá og með næstu mánaðamótum geti meira en 900 Mexíkómenn lent í þessari stöðu .