Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Metur áhrif bankahruns á mannréttindi

07.12.2014 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna um erlendar skuldir og mannréttindi kemur til Íslands á morgun í umboði Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna til að meta áhrif bankahrunsins á mannréttindi á Íslandi.

Juan Pablo Bohoslavsky er lögfræðingur og óháður sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í erlendum skuldum og mannréttindum. Koma hans er, að sögn Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, fyrsta heimsókn óháðs sérfræðings hingað til lands til að kanna áhrif erlendra skulda á mannréttindi á Íslandi.

Í yfirlýsingu segist hann sérstaklega ætla að kanna áhrif bankakreppunnar á réttindi til vinnu, húsnæðis, heilbrigðis og menntunar og á ákveðna þjóðfélagshópa. Almennt sé talið að Ísland hafi valið sérstaka leið til að bregðast við fjármálakreppunni þannig að þátttaka almennings hafi verið aukin og pólitísk og lagaleg reikningsskil hafi verið tryggð.

Bohoslavsky segir að hann ætli einnig að kanna hvernig ríkisstjórn Íslands hafi leitast við að milda neikvæð félagsleg áhrif kreppunnar á landsmenn. Bohoslavsky kemur hingað til lands í boði stjórnvalda og fundar með embættismönnum, forseta hæstaréttar, þingmönnum, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, umboðsmönnum, fulltrúum mannréttindastofnana og félagasamtaka og sérfræðingum úr háskólasamfélaginu.

Bráðabirgðaniðurstöður Bohoslavskys verða kynntar á blaðamannafundi 15. desember en lokaniðurstöður og ráðleggingar í skýrslu til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á næsta ári.