Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Methanex kaupir hlut í Carbon Recycling

30.07.2013 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Kanadíska fyrirtækið Methanex undirritaði í dag samning um fjárfestingu sem hljóðar upp á 5 milljónir bandaríkjadala, eða 600 milljónir króna, í íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling International (CRI).

Samningurinn var undirritaður í Hörpu að viðstöddum Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands.

Carbon Recycling International framleiðir metanól úr útblæstri, vatni og raforku. Metanólið er selt á mörkuðum á Íslandi og í Evrópu undir vörumerkinu Vulcanol. Því er blandað í bensín eða notað við framleiðslu á öðru eldsneyti, þar á meðal lífdísil.

Auk þess að leggja til 5 milljóna bandaríkjadala hlutafé áformar Methanex að styðja áframhaldandi vöxt CRI. Methanex verður einn af stærstu hluthöfum CRI og fær sæti í stjórn fyrirtækisins. Fyrirtækin tvö hyggja á nánara samstarf um að reisa eldsneytisverksmiðjur á Íslandi.