Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Metfjöldi þingmanna hættir á Alþingi

13.08.2016 - 18:28
Sextán alþingismenn, eða fjórði hver þingmaður, ætla að hætta á Alþingi í haust. Aldrei hafa svo margir þingmenn hætt af sjálfsdáðum í einu. Í hópnum eru sjö þingmenn sem hafa verið ráðherrar.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tilkynnti í gær að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu í haust. En Illugi er langt frá því að vera eini þingmaðurinn sem ætlar að hætta að loknu yfirstandandi þingi. Allt í allt er vitað um sextán þingmenn sem ætla að hætta, sem nemur um það bil fjórða hverjum þingmanni á Alþingi. En lítum á hverjir þetta eru.

Af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins ætla að hætta, auk Illuga, þau Einar K. Guðfinnsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. 

Fimm hverfa úr þingflokki Framsóknarflokksins; þau Frosti Sigurjónsson, Haraldur Einarsson, Páll Jóhann Pálsson, Sigrún Magnúsdóttir og Vigdís Hauksdóttir. 

Aðeins einn þingmaður Pírata ætlar að hætta á þingi: Helgi Hrafn Gunnarsson. 

Og hjá Vinstri grænum hættir Ögmundur Jónasson einn þingmanna. 

Samfylkingin missir tvo þingmenn: Þau Katrínu Júlíusdóttur og Kristján L. Möller. 

Og hjá Bjartri framtíð hverfur hálfur þingflokkurinn á braut þegar þau Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall hætta. 

Samanlagt hafa þessir sextán þingmenn setið á Alþingi í 133 ár. Og með þeim hverfur mikil reynsla. Í hópnum eru tveir núverandi ráðherrar og fimm fyrrverandi ráðherrar. Þá eru þarna einnig forseti Alþingis og fyrsti varaforseti þingsins, fjórir formenn þingnefnda og tveir formenn þingflokka.

Mikil endurnýjun hefur átt sér stað á Alþingi frá hruni. Nú sitja aðeins átján þingmenn á Alþingi sem hafa setið þar frá því fyrir hrun. Af þessum átján þingmönnum hætta nú sex.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hafa aldrei eins margir þingmenn ákveðið að hætta í einu og nú. Þegar þingi var frestað árið 2013 hættu 13 þingmenn, 10 árið 2009 og 6 árið 2007, 6 árið 2003 og 9 árið 1999 svo dæmi séu tekin.