Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Metfjöldi rafbíla skráður hér á landi í janúar

03.02.2020 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Aldrei hafa fleiri nýir rafbílar verið skráðir hér á landi en í janúar, á meðan skráning á dísil- og bensínbílum dregst saman. Framkvæmdastjóri Orkuseturs telur að rafbílaeign eigi eftir að aukast mikið á þessu ári og þá styttist í sölu á notuðum rafbílum.

Í janúar var 151 rafbíll skráður hér á landi og er það í fyrsta sinn sem yfir 150 nýir rafbílar, sem ekki nota aðra orku en rafmagn, eru skráðir hér í einum mánuði.

Um leið samdráttur í sölu á bensín- og dísilbílum

„Á sama tíma var í raun og veru minnkun á sölu á bensín- og dísilbílum, miðað við janúarmánuð í fyrra,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.

Hugarfarsbreyting og meira framboð af rafbílum

Og hann segir ýmsar ástæður fyrir því að rafbílar seljist nú betur en áður. Bíleigendur virðist almennt komnir á þá skoðun að rafbíll sé það sem koma skal, auk þess sem úrval þessara bíla hafi aukist umtalsvert. Á síðasta ári hafi lítið framboð og fáar tegundir takmarkað útbreiðslu rafbíla.

50% af nýjum bílum raf- og tengiltvinnbílar

Og Sigurður telur að árið 2020 verði gott rafbílaár. „Vitundin er komin og fjöldi tegunda og bíla margfaldast á þessu ári. Er við tökum rafbíla og tengiltvinnbíla saman, þá er þetta að nálgast 50% nýskráningahlutfall.“

Markaður með notaða bíla á næsta leiti

Og brátt skapist viðskipti með notaða rafbíla. Sem þó séu allir nýlegir, enda ekki langt síðan rafbílar komu á markað hér í miklum mæli. „Nú loksins má kannski segja að það séu að detta inn fyrstu bílarnir, í einhverju magni, á eftirmarkað. Sem er mjög mikilvægt af því að það er stór kaupendamarkaður sem í raun og veru kaupir notaða bíla. Þannig að ódýrari rafbílar eru að koma inn á markaðinn núna, í formi notaðra bíla.“