Mesti hvellur vetrarins í árekstrum

27.02.2020 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV
Mikil vetrarfærð á höfuðborgarsvæðinu hefur valdið mörgum umferðaróhöppum í dag. „Þetta er klárlega búinn að vera mesti hvellur vetrarins,“ segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Áreksturs.is. „Við erum komnir í á annan tug árekstra og í nokkrum eru fleiri en tveir bílar, þannig að það er búið að vera mjög mikið að gera.“

Er þetta mikið til bara eitthvað nudd eða hefur orðið mikið tjón?
„Já já, það hefur þurft að hringja í dráttarbíla til að láta draga bíla óökufæra af árekstrarstað þannig að það er búið að vera bæði miðlungs- og minniháttar mundi ég segja, en bara mjög mikið af árekstrum.“

Kristján segir skilyrðin hafa verið arfavond, mikil hálka, þungfært og lítið skyggni. „Ég var til dæmis uppi á Kjalarnesi í morgun í fjögurra bíla árekstri og það sá á tímabili ekki út úr augum. Ég sá á leiðinni upp eftir og niður eftir að það voru bílar út af hægri vinstri.“

Kristján segist eiga von á framhaldi á þessu í dag, enda áfram spáð snjókomu.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi