Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mesta rýrnun íslenskra jökla í áratug

19.11.2019 - 20:07
Mynd: RUV / RUV
Þrír stærstu jöklar landsins hafa minnkað meira síðan í fyrra en þeir hafa gert árlega síðastliðinn áratug, eða frá því að Eyjafjallajökull gaus. Þetta sýna nýjar mælingar sem eru einhverjar þær neikvæðustu í rúmlega 30 ára sögu afkomumælinga á jöklum.

Hofsjökull er einn af meginjöklum Íslands. Á sögulegum tíma var hann stærstur við lok 19. aldar en frá árinu 1890 hefur flatarmál hans minnkað úr 1030 ferkílómetrum í 820 ferkílómetra, eða um rúmlega 20 prósent. Ítarlegar mælingar á jöklinum hófust árið 1930 en frá árinu 1988 hefur afkoma hans verið mæld árlega. Mælingarnar sýna hvort jökullinn bætir við sig eða rýrnar á milli ára. 

Vísindamenn fóru nú í nóvember á jökulinn til þess að gera svokallaða haustmælingu, en afkoman er mæld frá hausti til hausts. 

„Niðurstaðan er sú að Hofsjökull tapaði sem nemur 1,7 metrum í vatnsgildi á árinu 2019. Og það er rýrnun með mesta móti miðað við þau 32 ár sem við höfum verið að mæla,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur á sviði jöklarannsókna á Veðurstofu Íslands.

1,7 metrar í vatnsgildi jafngilda einum og hálfum rúmkílómetra vatns, sem nemur um helmingi af öllu rúmmáli Þingvallavatns og jafngildir því vatni sem fellur um Gullfoss á hálfu ári.

Þegar niðurstöður afkomumælinga á Hofsjökli undanfarin 32 ár eru skoðaðar kemur í ljós að afkoman hefur verið neikvæð í 27 ár af 32. Rýrnunin var mest árin 1991 og 2010 sem skýrist að hluta vegna áhrifa eldgosa á leysingu.

„Hlýnandi loftslag“

Einnig er mælt hversu mikið jökullinn hopar. Niðurstöður mælinga þessa árs liggja ekki fyrir, en Þorsteinn segir líklegt að hann hafi víða hopað um 50 metra.

En það er ekki bara Hofsjökull sem rýrnar. Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands mældi nýverið ástand Vatnajökuls og Langjökuls í samvinnu við Landsvirkjun. Í ljós kom að þeir höfðu báðir rýrnað. Vatnajökull um 1,26 metra í vatnsgildi sem er mesta rýrnun frá 2010, og Langjökull um 2,23 metra sem er einnig mesta rýrnun frá 2010, þegar eldgosið í Eyjafjallajökli olli mikilli rýrnun.

Hvað veldur þessari þróun?

„Það er hlýnandi loftslag, í stuttu máli sagt,“ segir Þorsteinn. „Það má segja að vetrarafkoman eða hversu mikið snjóar á jökulinn haldist nokkuð stöðugt, og eykst lítillega kannski. En síðan hlýnar að sumarlagi og leysingatímabilið er heldur að lengjast og það skilar sér einfaldlega í því að meira leysir af jöklinum.“

Þorsteinn segir að jöklar á Íslandi hafi rýrnað nánast stöðugt frá árinu 1995, þótt nokkuð jákvæð afkoma hafi mælst 2015 og jöklarnir hafi verið í jafnvægi 2018.

„En núna kemur mjög neikvætt afkomuár þannig að við sjáum ekki annað en að jöklarýrnun haldi áfram af fullum krafti.“