Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mest hætta á rafmagnsleysi á Reykjanesskaga

07.01.2020 - 08:02
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Djúp lægð gengur norðaustur yfir landið í dag. Vegna hennar er gul veðurviðvörun um allt land. Landsnet býr sig undir rafmagnstruflanir næstu daga því selta og ísing getur sest á rafvirki.

Færð gæti spillst

Bylurinn er þegar farinn að hafa áhrif á Vestfjörðum. Þar er norðaustan hvassviðri að tuttugu og þremur metrum, lítið skyggni og ekkert ferðaveður að því er segir á vef veðurstofunnar. Þar á að lægja síðdegis. Vegagerðin segir að víða um land sé snjóþekja og hálka og óveður á Kjalarnesi. 

Lægðin gengur yfir landið í dag og í kjölfar hennar snýst vindur í suðvestan storm eða rok með éljum á sunnanverðu landinu eftir hádegi og á norður- og austurlandi í kvöld. Hvassast verður í Vestmannaeyjum og með suðurströndinni, sem er varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Lítið skyggni á höfuðborgarsvæðinu

Á höfuðborgarsvæðinu skellur veðrið á upp úr hádegi með éljagangi og skafrenningi og litlu skyggni. Þetta getur haft áhrif á færð og flugsamgöngur. Flugi til Ísafjarðar hefur verið aflýst í dag.

Veðurviðvörunin er í gildi þar til um hádegisbil á morgun. Aftur er spáð stormi vestan til á landinu á fimmtudag með áframhaldandi éljagangi.

Álag á raforkukerfið

Vegna þessa hefur Landsnet virkjað viðbragðsáætlun. Vegna lægðarinnar er reiknað með auknu álagi á raforkukerfið fram á fimmtudag af völdum vinds, ísingar og seltu. Landsnet hefur mestar áhyggjur af rafmagnsleysi á Reykjanesskaga. Svæðin sem Landsnet fylgist sérstaklega með eru Reykjanesskagi, höfuðborgarsvæðið, Vesturland, Snæfellsnes og Suðurland. Þá eru slökkvilið í viðbragðsstöðu til að hreinsa tengivirki. Fólk er hvatt til að fylgjast með tilkynningum frá stjórnstöð Landsnets. 

Fréttin hefur verið uppfærð.