Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Messufall bókanna

Mynd: EPA / EPA

Messufall bókanna

26.03.2020 - 12:56

Höfundar

Vorin og haustin eru öllu jafna tímar ferðalaga hjá bókaútgefendum þar sem hver bókakaupstefnan tekur við af annarri og útgefendur koma saman og sýna vöru sína, bækurnar allar. Nú er öldin önnur og standa kaupstefnusvæðin auð vegna kórónuveirufaraldursins.

Á kaupstefnunum fer fram sala á höfundar- og þýðingarétti bóka svo að þær megi koma út sem víðast í heiminum. Margir muna hversu gríðarlega útbreiðslu íslenskar bækur fengu um víða veröld í tengslum við að íslenskar bókmenntir sem voru í brennidepli á Bókakaupstefnunni í Frankfurt fyrir tólf árum og hefur sú sigurganga haldið áfram.

Nú er öldin önnur, hin risavöxnu yfirbyggðu kaupstefnusvæði hvar sem er í heiminum standa auð því öllu er slegið á frest. Íslenskir bókaútgefendur og aðrir þeir sem koma kynningu íslenskra bókmennta sitja nú heima og reyna að afpanta hótel og flugferðir.

Í þættinum Orð um bækur 21. mars var rætt við Hrefnu Haraldsdóttur framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskrar bókmenntamiðtöðvar og Guðrúnu Vilmundarstjóra eiganda Benedikts bókaútgáfu. Þær fóru ekki eins og til stóð á bókamessuna í London né heldur á barnabókakaupstefnuna í Bologna sem var einnig á endanum felld niður eftir að búið var að fresta henni frá byrjun mars til miðs apríl. Það sama er að segja um Bókakaupstefnuna í Leipzig sem halda átti 18-21. mars. Allt var blásið endanlega af þetta árið og meira til. Enn er þó von á því að bókakaupstefnan í Frankfurt verði samkvæmt áætlun haldin 14.-18. október.

Frá bókakaupstefnunni í Leipzig 2019.
 Mynd: EPA
Margt um manninn á bókakaupstefnunni í Leipzig 2019.

Þótt vissulega sé einfalt að senda bækur, það er að segja texta þeirra rafrænt á milli fólks og hægur vandi fyrir útgefendur og umboðsmenn að ræða saman um sín viðskipti og jafnvel ganga frá samningum í hinum rafræna heimi þá eru þær Hrefna og Guðrún sammála um það að ekkert komi í staðinn fyrir það að vera á staðnum, standa augliti til auglitis með bók í hendi og kasta á milli sín.

„Mér finnst það að fara á bókakaupstefnur með því skemmtilegasta  í bókabransanum,“ segir Guðrún Vilmundardóttir í viðtalinu. „Hlutirnir verða einfaldlega öðruvísi þegar maður hittir fólk, þótt maður hafi jafnvel verið í daglegum eða vikulegum samskiptum við viðkomandi í gegnum tölvupóst allt árið. Það kvikna öðruvísi hugmyndir. Svo rekst maður kannski á bók sem maður hafði ekki tekið inn áður, hittir síðan einhvern sem er akkúrat búinn að lesa þessa bók og síðan annan og allt í einu eru þessi bók komin inn í umræðuna.“ Hrefna Haraldsdóttir tekur undir þetta. „Allt það sem gerist óvænt og skyndilega dettur út í hinum rafræna heimi, tveggja manna tal og það sem gripið er á lofti. Ekkert rafrænt kemur í staðinn fyrir það.“ Það er ekkert tilfallandi í hinum rafræna heimi, þar er gengið til samskipta með ákveðið markmið og hlutirnir eru vel skipulagðir.

Þrátt fyrir allt gengur lífið sinn vanagang hjá forlögunum og hjá Miðstöð íslenskra bókmennta. Það þarf eftir sem áður að velja bækur til útgáfu í haust, það þarf að prófarkalesa og ritstýra og ugglaust vera höfundunum stoð þótt vissulega séu þeir vanir að vinna heima. Hitt er svo annað að höfundar nú orðið fylgja eftir útgáfu bóka sinna um víða veröld og ef allt hefði verið eins og venjulega hefðu væntanlega fjölmargir höfundar verið á faraldsfæti.

Hjá Miðstöð íslenskra bókmennta snúast verkefnin þessa dagana um það að fara yfir umsóknir um styrki til útgáfu, þýðinga og svo framvegis. Þá er undirbúningur fyrir bókakaupstefnuna í Gautaborg í fullum gangi sem og hina gríðarstóru Frankfurtarmessu. Hjá Benedikt bókaútgáfu er einnig allt á fullu þótt starfsaðstaðan hafi flust af Bræðraborgarstígnum og heim í eldhús útgefandans og samstarfsfólks hans. Á næstu dögum er von á fyrstu glæpasögunni sem Benedikt gefur út til landsins, Þerapistinn eftir norska rithöfundinn Helene Flood. Þetta virðist vera fyrsta bók Helen og er sagan sögð sæta tíðindum í röðum sálfræðitrilla. Þá bíða ugglaust líka margir eftir nýrri bók Elenu Ferrante sem væntanleg er í júní.

Bókaútgáfa telst líklega seint til grunnstoða atvinnulífsins en er vissulega grunnstoð samfélagsins og menningarinnar og nú er bókin jafnvel vinur og félagi sem aldrei fyrr. Rétt er því að geta þess að þótt bókasöfnum hafi nú verið lokað þá eru valdar bókabúðir enn opnar auk þess sem forlögin bjóða upp á heimsendingarþjónustu.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bókaskemmtun og bókahneykslan í Frankfurt

Trúarbrögð

Ísland heiðursgestur en Harry Potter logar