Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Merkur fornleifafundur í Mývatnssveit

28.10.2016 - 12:16
Frá fornleifauppgreftri í Hofstaðakirkjugarði í sumar. Mynd af facebooksíðu uppgraftarins.
Fornleifafræðingar að störfum í Hofstaðakirkjugarði. Mynd af facebook-síðu verkefnisins. Mynd: Fornleifastofnun - Hofstaðir Excavation Facebook
Bæjarstæði frá víkingaöld fannst fyrir tilviljun á Hofstöðum í Mývatnssveit nýlega. Fornleifafræðingur segir þennan fund hafa mikla þýðingu og breyti hugmyndum um svæðið, en áður hafði fundist þar veisluskáli. Svæðið hafði verið kannað ítarlega, án þess að bæjarstæðið hefði fundist.

Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag, en þar kemur fram að fundist hafi leifar af skála sem er talinn hafa verið um 26 metra langur. Sá skáli var því nokkuð minni en veisluskáli sem áður hafði fundist á svæðinu en hann er tæpum fimmhundruð metrum sunnar. Fornleifafræðingurinn Orri Vésteinsson hefur rannsakað svæðið en aldrei rekið augun í tóftirnar, en þær komu óvænt í ljós þegar svæðið var skoðað á gervihnattarmynd í forritinu Google Earth.

Á kafi í kjarri

„Þetta er á kafi í kjarri og það er sennilega aðalástæðan, þetta blasir ekkert alveg við þó maður labbi þarna framhjá,“ segir Orri.

Fornleifafræðingar hafa rannsakað svæðið mjög ítarlega síðustu fimmtán ár en með þessum fundi er ljóst að þeim rannsóknum er hvergi nærri lokið. Orri segir þennan fund mjög merkilegan.

Býsna stór skáli

„Já, hann er stórmerkilegur aðallega í samhengi við þennan stað. Þetta er reyndar býsna stór skáli miðað við aðra sem við þekkjum, en hann er ekki nærri eins stór og veisluskálinn sem hefur verið grafinn upp í túninu á Hofstöðum,“ segir Orri.

12. aldar gjóskulag úr Heklu

Um síðustu helgi grófu fornleifafræðingar skurð og gátu þá strax getið sér til um hvenær skálinn var byggður.

„Það sást greinilega að það liggur gjóskulag, bæði yfir veggnum og inni í tóftinni, sem er hvítt 12. aldar gjóskulag úr Heklu. Það er annaðhvort frá 1104 eða 1158 og af reynslu okkar af þessum lögum þarna sunnar í sama túni, að þá er þetta líklega frá 1104,“ segir Orri.