Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Merkileg sýn á Ísland um aldamótin 1900

Mynd: Pike Ward / ÞMS / Pike Ward / ÞMS

Merkileg sýn á Ísland um aldamótin 1900

14.09.2019 - 14:00

Höfundar

Í Þjóðminjasafni Íslands er nú sýning á ljósmyndum og gripum sem voru í eigu enska fiskkaupmannsins, útgerðarmannsins og Íslandsvinarins Pike Ward sem var kunnur hér á Íslandi um aldamótin 1900.

Pike Ward kom fyrst til Íslands 1893 og dvaldi hér hluta úr ári hverju í tengslum við fiskkaup fram til 1914. Ward keypti jafnframt gripi af landsmönnum og kom upp safni á þeim á heimili sínu í Englandi. Hann tók einnig ljósmyndir á ferðum sínum um landið sem gefa merkilega innsýn í daglegt líf á þessum árum. 

Íslensku blöðin fluttu fréttir af Pike Ward á sínum tíma, ekki bara af ferðum hans til og frá landinu eða milli landshluta, heldur af útgerð hans í Hafnarfirði og fiskkaupum á Vestfjörðum og Austfjörðum, ráðgjöf hans til Íslendinga um framfaramál og framlög hans til velferðarmála. 

Alla 20. öldina birtust öðru hvoru frásagnir af sögulegu hlutverki hans í íslenskum sjávarútvegi, útgerð á einum fyrsta togaranum við Ísland (Útópíu í Hafnarfirði) og hvernig hann kynnti fyrir Íslendingum nýtingu á minni fiski, sem kallaður var vorðari eða vorðfiskur í höfuðið á honum sjálfum. Í viðskiptum sínum staðgreiddi Ward í peningum, sem var nýmæli á Íslandi á þeim tíma.

Mynd með færslu
 Mynd: Ruv mynd
Inga Lára Baldvinsdóttir hér með málverki af Pike Ward á ferð um landið.

Merkar ljósmyndir 

Nýverið komu fram í skjalasafni Devon í Exeter í Englandi ljósmyndir sem Pike tók á ferðum sínum hér, auk úrklippusafns hans um ýmis málefni sem tengdust Íslandi. Inga Lára Baldvinsdóttir, fagstjóri Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni, segir myndirnar merkar í samhengi íslenskrar ljósmyndasögu. Ward ferðaðist víða um landið og meðal annars um fáfarnari slóðir. Hann myndaði hið daglega líf á tímum þegar áhugaljósmyndun var réttt að koma til sögunnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Pike Ward /ÞMS
Kona á leið úr Þvottalaugunum á ljósmynd Pike Ward.

Sem dæmi má nefna að á einni myndanna sést kona hefja göngu sína í Þvottalaugarnar með byrðar sínar á bakinu og aðra snúa heim að loknu dagsverki með hreinan þvottinn. Á öðrum myndum sést slátrun á fé, klipping á mönnum utandyra á Seyðisfirði, konur að umstafla fiski til útflutnings neðanþilja, áraskip á leið í land með póst og þannig mætti lengi telja.

Í viðtalinu hér fyrir ofan segir Inga Lára Baldvinsdóttir hlustendum frá Pike Ward, hlustendum hans og gripasöfnun. Tónlistin í innslaginu er úr Strengjaserenöðu Edwards Elgar.  

Mynd með færslu
 Mynd: Pike Ward / ÞMS
Myndir Ward gefa innsýn í líf vinnandi fólks um aldamótin 1900.

Tengdar fréttir

Myndlist

Leitin að heimsálfum, leitin að sjálfinu

Myndlist

Passamyndir sem listform

Myndlist

Fann gleði í smíðum, steypu og mistökum