
„Mér finnst þetta vera taparatal“
„Nei ég er ekki sammála því,“ sagði Willum í viðtali í Morgunútvarpinu í morgun. „Þú getur alveg komið með gagnrökin í því og sagt að það hefði getað farið verr ef við hefðum ekki breytt en það vitum við aldrei. Mér finnst þetta, ég verð bara að segja, taparatal.“
Framsóknarflokkurinn hlaut 11,5 prósent atkvæða á landsvísu sem skilar honum átta þingmönnum. Willum Þór var einn þeirra ellefu þingmanna flokksins sem náði ekki kjöri. Hann segir það vonbrigði að hafa ekki náð kjöri en að hann taki niðurstöðunni með æðruleysi. Öðru máli gegni með tap í fótbolta.
Í Fréttablaðinu segir Sigmundur Davíð að hann hafi verið búinn að leggja drög að kosningabaráttu. „Ég var búinn að leggja drög að því hvernig með öflugri kosningabaráttu hefðum við getað hækkað fylgið um kannski fjögur prósentustig og svo kannski tvö í viðbót í kosningunum sjálfum. Við hefðum þá getað gert ráð fyrir 18 til 19 prósenta fylgi,“ segir Sigmundur.
Hann segir að innbyrðis átök í Framsóknarflokknum hafi valdið þessari niðurstöðu. „Að vera með flokkinn í innbyrðis átökum vikum og mánuðum saman, frekar en að einbeita sér að því að undirbúa kosningar og fara samhent í þær með þennan árangur sem við vorum búin að ná, leiddi til þessarar niðurstöðu. Þeir sem höfðu áhyggjur af Píratastjórn fóru yfir á Sjálfstæðisflokkinn sem auðnaðist það að standa saman,“ segir Sigmundur Davíð.