Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mér finnst þetta hörmuleg tíðindi“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

„Mér finnst þetta hörmuleg tíðindi“

30.01.2020 - 20:06

Höfundar

Það eru hörmuleg tíðindi ef Bíó Paradís verður lokað. Þetta segir formaður menningar-, íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar. Húsinu verður lokað eftir þrjá mánuði, náist ekki samningar við eigendur þess, sem vilja rúmlega tvöfalt hærri leigu.

Bíó Paradís við Hverfisgötu var opnað haustið 2010. Bíóið hefur skapað sér sérstöðu með því að sýna kvikmyndir frá öllum heimshornum, og standa fyrir kvikmyndahátíðum. Áður en Bíó Paradís opnaði hafði Regnboginn verið í húsinu allt frá árinu 1977. Nú er framtíð kvikmyndasýningar í Bíó Paradís í mikilli óvissu, enda stefnir allt í að síðasta myndin verði sýnd þar í vor.

Vill markaðsverð

„Við neyðumst til þess að loka, ég neyðist til þess að segja upp öllu starfsfólki mínu og veita þeim þriggja mánaða lögbundinn uppsagnarfrest og svo skellum við í lás 1. maí,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar.

Fimm manns eru í fullu starfi í Bíó Paradís, og 25 í hlutastarfi. 

„Okkur líður hræðilega og við héldum að það kæmi ekki til þess að við þyrftum að gera þetta. En eins og staðan er núna er þetta það eina sem við getum gert.“

Hrönn segir að reksturinn gangi vel, gestum hafi fjölgað og í fyrra hafi 60.000 gestir heimsótt bíóið. Aðeins um 20 prósent tekna séu í formi styrkja.

„Við vorum með mjög góðan leigusamning, við vorum að borga vel undir markaðsverði enda er ástand hússins vafasamt. Nú er svo komið að eigandi hússins vill fara að rukka markaðsverð fyrir leiguna og við erum í brýnni viðhaldsþörf.“

80% hækkun á fasteignagjöldum

Eigandi hússins er félagið Karl mikli ehf. sem er í eigu þriggja annarra félaga, sem hafa meðal annars tengsl við fjárfestingafélagið GAMMA.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur leigan verið rúmlega 1.6 milljónir á mánuði, en inni í þeirri tölu er leiga Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á skrifstofurými í húsinu. Til stendur að hækka hana í tæplega fjórar milljónir, sem er rúmlega tvöföld hækkun. Arnar Hauksson, einn eigenda Karls mikla, segir að félagið hafi verið að borga með húsnæðinu og að fasteignagjöld hafi hækkað um 80 prósent frá því að það var keypt. Hann hafi lítið heyrt í stjórnendum bíósins og ekki fengið viðbrögð við tillögu um hækkun, sem þó feli í sér lægra leiguverð en þekkist í næsta nágrenni.

„Mér finnst þetta hörmuleg tíðindi og við í menningar-, íþrótta og tómstundaráði fengum veður af þessu fyrr í þessum mánuði og samþykktum samhliða bókun um að Bíó Paradís væri mikilvæg menningarstofnun sem þyrfti endilega að fá að halda áfram að starfa og að það yrði leitað lausna,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.

Kemur til greina að styrkja Bíó Paradís enn frekar svo hægt sé að brúa bilið?

„Það er allt of snemmt að segja til um það. Borgin hefur styrkt Bíó Paradís mjög rösklega, um 17,5 milljónir á ári, og við skulum bara vona að þessir aðilar nái saman,“ segir Hjálmar.

Tengdar fréttir

Innlent

Segir rangt að leiguverð Bíó Paradísar margfaldist

Innlent

Bjóst ekki við að þurfa að undirbúa lokun Bíó Paradísar

Innlent

Bíó Paradís segir upp öllu starfsfólki og framtíð óljós