„Mér brá alveg svakalega“

14.02.2020 - 18:38
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
„Mér brá alveg svakalega því ég átti náttúrulega ekki alveg von á þessu. Þessi kofi er búinn að standa hérna í mörg, mörg ár.“ Þetta segir Guðrún Ósk Barðadóttir, sem kom fyrst að þar sem þak á útihúsi hafði fokið á þjónustumiðstöð tjaldsvæðisins í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Fárviðrið í dag olli töluverðu tjóni á Suðurnesjum. Mest megnis var það foktjón en einnig tjón vegna sjávargangs. Grjóthnullungar köstuðust á land á Ægisgötu og malbik eyðilagðist. Sjór flæddi yfir götur í bænum og inn í hús og í Garði flæddi inn í kjallara íbúðahúss. 

Útihús sprakk og fauk út í buskann

„Víða hafa rúður brotnað, meira að segja útihús hafa sprungið og fokið út í buskann, og enginn veit hvert,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. „Bílar hafa færst til og fokið, og rúta fauk til, kyrrstæð, og það er enginn af þéttbýlisstöðunum hérna sem hefur farið varhluta af þessu veðri,“ segir Ólafur Helgi.

Og það er svo sannarlega raunin með Voga á Vatnsleysuströnd. Stormurinn feykti þakinu af útihúsi þannig að það lenti á næsta húsi. „Það er gat á húsinu, þá náttúrulega blæs hér inn og það er rigning,“ segir Guðrún Ósk. Hún segist vona að tjónið fáist bætt úr tryggingunum og þakkar fyrir að engan hafi sakað. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Gatið nær í gegnum vegginn á þjónustumiðstöðinni
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi