Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Menningarvitinn: Margrét Erla Maack

Mynd með færslu
 Mynd: Kaspars Bekeris - Einkasafn

Menningarvitinn: Margrét Erla Maack

10.11.2017 - 15:07

Höfundar

Margrét Erla Maack er fyrir löngu orðin þjóðþekkt og sinnir mörgum og fjölbreyttum störfum. Meðal annars er hún vinsæll veislustjóri, dansari, danskennari, plötusnúður og spurningahöfundur. Hún stýrir einnig „burlesque“ dans- og leiksýningunni Reykjavík kabarett sem nýtur sívaxandi vinsælda.

Margrét Erla Maack er menningarvitinn að þessu sinni og veitir lesendum innsýn í sína eftirlætis list og afþreyingu þessa stundina.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið - 

Leikhús

Fyrir rúmu ári sá ég Brot úr hjónabandi í leikstjórn besta frænda míns, Ólafs Egils Egilssonar. Ég hef aldrei orðið fyrir jafnmiklum áhrifum í leikhúsi. Eftir á fór ég bakvið að þakka fyrir mig, mætti Óla og við féllumst í faðma og grétum. Svo komu Unnur og Björn sem leika í verkinu og grétu með, og svo Maríanna Clara sem er æskuvinkona þeirra og Esther konan hans Óla. Og svo stóðum við í hnapp og grétum saman. Mjög falleg stund. Ég vil ekki segja of mikið til að skemma ekki fyrir þeim sem eiga eftir að sjá sýninguna, en ég er sammála Silju Aðalsteins, sem skrifaði í sínum dómi: Ég öfunda þá sem eiga eftir að sjá sýninguna. Hún er víst að detta aftur í sýningar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Margrét Erla Maack - Einkasafn

List

Hér þarf ég aðeins að beygja reglurnar og tilnefna kabarettleikhús, þar sem það er uppáhaldsmenningarstofnunin mín sem setur upp magnaðar sýningar alla daga vikunnar: Slipper Room í New York. Metnaður, háklassasýningar og allt til fyrirmyndar. Ég er nýkomin heim úr sýningarferðalagi til New York þar sem ég sýndi meðal annars á Slipper Room. Því var að sjálfsögðu fagnað svo vel um helgina að kabarettlögum New York borgar var breytt. Staðurinn er heimili „neo burlesque“-senunnar í New York og er aldrei með eins sýningar, en það er alltaf hægt að ganga að því vísu að sjá það besta í hliðarsviðslistasenunni í New York í hvert sinn. Ég lít mikið til Slipper Room í minni burlesque-vinnu og hvernig ég raða saman fólki og atriðum á Reykjavík Kabarett. 

Mynd með færslu
 Mynd:  - 

Bók

Ég öfunda fólk sem hefur eirð í sér til lesturs. Ég er ennþá ung og spræk og ver mínum frítíma í að hreyfa á mér skrokkinn, njóta menningar með því að vera virkur þátttakandi. Ætli ég sé ekki að geyma bókalestur til þess tíma þegar hnén gefa sig og fólk er ekki tilbúið að borga mér fyrir að hrista rassinn á mér. Matarást er sú bók sem ég les mest og hefur haft mest áhrif á líf mitt og lúxus.

Mynd með færslu
 Mynd:

Tónlist

Þessa dagana er ég á kafi í gamaldags bump og grind músík. Perez Prado, Louis Prima, Sil Austin, Buddy Johnson, Link Wray og svona. Voða gaman. 

Mynd með færslu
 Mynd:  - 

Sjónvarp

Project Runway þó að nýjasta serían sé alls ekki jafngóð og aðrar. Ég bíð spennt eftir nýrri seríu af RuPaul’s Drag Race. Svo langar mig að mæla með þáttunum Work of Art sem eru eftir sama formi, en bara um sjónlistir. Það voru gerðar tvær seríur, gott hámgláp.

Mynd með færslu
 Mynd:  - 

Vefsíða

Ég er í tveimur ótrúlega skemmtilegum hópum á Facebook sem ég mæli með. Annars vegar Vintage Updos for Modern Girls og svo Vintage Makeup for Modern Girls. Alveg ótrúlega skemmtilegir hópar sem ég get alveg gleymt mér í að fletta. Hversdagslistakonur deila þar greiðslum dagsins, alls konar trikkum og gömlum auglýsingum. Mæli innilega með.

Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels

Leikur

Ég hef alltaf verið mjög hrifin af Hver er maðurinn? Svo bjó vinkona mín Maísól til leikinn Hver er maturinn? Hann er líka skemmtilegur ef fólk er ekki of svangt.

Mynd með færslu
 Mynd:  - Youtube

Sakbitin sæla:

Ég er nýdottin í að horfa á „slímmyndbönd“ á Youtube. Einhverjir unglingar að búa til alls konar slík og láta það búa til hljóð. Ótrúlega róandi og dáleiðandi. Held þetta sé sambland sjónrænnar nautnar og ASMR