Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Menn verða að halda sínu striki í samningaviðræðum“

17.03.2020 - 19:00
Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
Áhrifa COVID-19 faraldursins í atvinnulífinu gætir nærri alls staðar og óveðursblikur eru á lofti víða um heim. Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, hefur vakið athygli á því að aðstæður fólks til að takast á við sóttkví og einangrun eru misjafnar og þá er ekki öllum létt að vinna heima. Minni yfirvinna og samdráttur í tekjum getur komið sumum verr en öðrum.

Drífa telur að það versta sem hægt sé að gera núna væri að skerða kjör fólks. Slíkt geti haft keðjuverkandi áhrif. Fólk veiti sér þá minna og það geti gert það að verkum að lægðin verði dýpri og erfiðara að ná viðspyrnu. 

Ráðningarsambandið verði að haldast

Kjarasamningar verði að halda og ekki sé gefinn afsláttur af kjörum fólks og þá skipti miklu að ráðningarsambandið haldist, það sé fyrirtækjum líka fyrir bestu að halda í fólk sem býr yfir þekkingu og reynslu þegar kemur að því að allt fari af stað aftur. Það að tryggja að fólk geti fengið atvinnuleysisbætur en haldið hlutastarfi sé mikilvægur þáttur í því. Ríkisstjórnin hafi kynnt aðgerðir sem miða að því líkt og gert hefur verið víða annars staðar á Norðurlöndunum og það sé líka að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar. 

Ferðaþjónustan áhyggjuefni

Mikil starfsmannavelta, fólk á tímakaupi og los í ráðningarsambandi er nokkuð algent, segir Drífa, í ferðaþjónustunni og þess vegna hefur hún sérstakar áhyggjur af þeirri grein. 

Ósamið hjá mörgum

Verkfall Eflingarfélaga sem starfa hjá sveitarfélögum, til dæmis í Kópavogi og á Seltjarnarnesi, heldur áfram og hefur nú staðið í rúma viku. Fundi í kjaradeilu félagsins og samninganefndar sveitarfélaga lauk án niðurstöðu hjá ríkissáttasemjara á mánudag. Í tilkynningu frá Eflingu segir að sveitarfélögin hafi hafnað því að veita starfsfólki sínu sambærilega kjaraleiðréttingu og þá sem Efling samdi um við Reykjavíkurborg og ríkið á dögunum. Drífa segir að það sé alltaf vont þegar ekki næst að semja og finnst að menn ættu að vinda sér í það að klára samninga og vonar að það takist líkt og gerðist í samningum Eflingar og Reykjavíkurborgar. 

Við munum ekki hvetja okkar aðildarfélög til að grípa til einhverra undirboða í þessu ástandi heldur er einmitt mjög mikilvæg að hrygglengja vinnumarkaðarins haldi, að kjarasamningar haldi og svo getum við tekið sértæk úrræði þar fyrir utan. 

Aðstæðurnar núna eiga að vera hvatning til að ganga frá lausum endum, segir Drífa. Sumir hafi haft á orði að nýja samningamódelið sé hamfarasamningamódel. Alltaf þegar eigi að fara að ganga til samninga gerist eitthvað svakalegt hvort sem það sé fall WOW air eða kórónaveiran. Þrátt fyrir það verði menn að halda sínu striki.