Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mengun nýskráðra bíla jókst 2018

10.05.2019 - 16:00
epa05749710 Exhaust fumes during heavy traffic in central London, Britain, 25 January  2017. Reports suggest London pollution is reaching dangerous levels, with London's pollution levels worse than that of Beijing.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Mengun nýskráðra bíla jókst í fyrra eftir samfellda lækkun útblástursgilda frá árinu 2010. Losunin jókst um 1,4% frá árinu 2017. Aukningin kemur á óvart þar sem fjölgun hefur orðið á nýskráðum bílum sem nota aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti, svo sem metan eða rafmagn. Þá hafa bílaframleiðendur kappkostað að framleiða sparneytnari bíla sem menga minna.

Frá þessu er greint í nýútkominni Árbók Bílgreina. Óðinn Valdimarsson, verkefnastjóri hjá Bílgreinasambandinu, telur að skýringuna fyrir hærri losunargildum megi mögulega rekja til nokkurra þátta. Einn er sá að á síðari hluta ársins 2018 var byrjað að notast við nýja aðferð til að mæla gildi losunar. Sú aðferð skili í mörgun tilfellum hærri útblástursgildum en gamla aðferðin, þar sem mælingar séu framkvæmdar með öðrum hætti og eiga að endurspegla betur akstur við raunaðstæður.

Gamla aðferðin sem hafði verið viðmið frá upphafi níunda áratugarins hafi til dæmis verið framkvæmd á rannsóknarstofum eða á flatlendi á sléttum dekkjum. Óðinn segir aukninguna einnig geta stafað af því að mögulega séu framleiðendur komnir að nokkurs konar þolmörkum í lækkun á útblástursgildum bíla. Þróun á umhverfisvænni bílum hafi verið mjög hröð frá árinu 2010 og því hafi lækkun útblástursgilda einnig verið hröð. Samsetning bílakaupa gæti líka útskýrt hækkun losunargilda. Samsetningin þurfi ekki að breytast mikið milli ára til að hafa áhrif á losunargildið, en hlutfall nýskráðra bíla í fyrra með hærri losunargildi hafi verið meira en árið 2017. 

Yfir 380 þúsund ökutæki voru skráð á Íslandi í fyrra. Þar af voru einungis tæp 10 þúsund bílar sem gengu fyrir öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti. Af umhverfisvænni valkostum voru tengiltvinnbílar vinsælastir í fyrra og voru rúmlega 2800 nýjir bílar skráðir sem er 38,5% aukning milli ára. Nýskráðir rafmagnsbílar voru 784 eða 7,4% færri en árið 2017. Metanbílum fækkaði um 55% milli ára en einungis 144 nýir bílar voru skráðir í fyrra.