Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mengun frá flugeldum „raunverulegt vandamál“

19.12.2019 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Veruleg aukning varð á hlutfalli ýmissa efna í svifryki um síðustu áramót. Þetta kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar um niðurstöður mælinga á efnainnihaldi svifryks um áramótin 2018 - 2019. Skýrslan var kynnt í dag.

Sýnum var safnað í mælistöðvum við Grensásveg í Reykjavík og í Dalsmára í Kópavogi frá 27. desember 2018 til 10. janúar 2019. Mæld voru sextán mismunandi gerðir fjölhringja kolefnissambanda, og sautján frumefni, að því er fram kemur í tilkynningu Umhverfisstofnunar.

Hvetur alla til hófsemi

„Veruleg aukning varð á hlutfalli ýmissa efna í svifrykinu um áramótin. Þau efni sem hækka langmest eru efni sem mætti kalla einkennisefni fyrir mengun frá flugeldum. Því er ljóst að þessi efni eru ekki að koma frá öðrum uppsprettum eins og t.d. áramótabrennum,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að ryk með þessa efnasamsetningu verði að teljast varasamt. Stór hluti þess sé mjög fínn og mengunarálagið vegna brennisteins um áramótin jafngildi álagi fyrir heilan mánuð.

„Umhverfisstofnun hvetur alla til hófsemi í notkun flugelda og undirstrikar að mengun frá flugeldum er raunverulegt vandamál hér á landi. Þar er svifrykið það sem veldur mestum heilsufarsáhrifum. Stofnunin bendir á að loftmengun hefur neikvæð áhrif á þau sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa eins og börn, aldraða og fólk sem er veikt fyrir. Svifryk veldur ekki einungis óþægindum heldur skerðir lífsgæði margra,“ segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV