Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Meirihluti vill rýmka reglur um mannanöfn

06.08.2015 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
60% þeirra sem tóku þátt í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands vilja að reglur um mannanöfn verði rýmkaðar. 20% svarenda voru andvíg, en tæp 20% hlutlaus.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra telur sjálf að veita eigi fólki meira frelsi til að velja nöfn á börnin sín og hefur hug á því að breyta regluverkinu.

Könnunin samanstóð af þremur spurningum. Sú fyrsta var einfaldlega hvort viðkomandi væri fylgjandi eða andvígur því að núgildandi reglur um mannanöfn yrðu rýmkaðar, og var niðurstaðan býsna afdráttarlaus.

Önnur spurningin var: Að hve miklu leyti telur þú að reglur um mannanöfn eigi að vera rýmkaðar? Þar sögðu 24% að engar reglur ættu að gilda. 76% svarenda töldu að einhverjar reglur ættu að gilda, en greindi á um hversu strangar þær ættu að vera.

Þriðja spurningin var opin, en þar var fólk beðið um að nefna dæmi um hvaða reglur ættu að gilda um mannanöfn á Íslandi. Flestir töldu rétt að banna nöfn sem gætu orðið barni/einstaklingi til ama. Næstflestir vildu banna nöfn sem samrýmast ekki íslenskum málvenjum og beygingakerfi.

 

Félagsvísindastofnun annaðist könnunina fyrir innanríkisráðuneytið og náði hún til 1.437 einstaklinga. 873 einstaklingar tóku afstöðu og því var svarahlutfallið 61%. Úrtakið var tiljviljunarkennt og valið svo það endurspeglaði sem best samsetningu landsmanna út frá kyni, aldri og búsetu.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV