Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Meirihluti lögreglumanna frá vinnu

09.10.2015 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Meirihluti lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti veikindi í dag, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Heilu deildirnar eru mannlausar og sárafáir á vakt á hverfisstöðum lögreglunnar. Eftir því sem næst verður komist er enginn á vakt á lögreglustöðinni á Grensásvegi.

Lögreglumenn, sem eru orðnir langþreyttir á því að ekkert gangi að ná kjarasamningum, hringdu unnvörpum og tilkynntu sig veika í morgun. Fjármálaráðuneytið varð þess áskynja í gær að slíkar aðgerðir stæðu til og sendi frá sér yfirlýsingu. Þar var Landssambandi lögreglumanna hótað lögsókn fyrir ólöglegar aðgerðir í kjarabaráttu.

Viðmælendur fréttastofu innan Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segja að þar hafi meirihluti lögreglumanna ekki mætt á vakt heldur tilkynnt veikindi. Það birtist meðal annars í því að heilu deildirnar eru mannlausar. Almenn löggæsla er í lamasessi, stöku bíll gerður út en ekkert í samræmi við það sem venjulega er. Stjórnendur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sendu í morgun frá sér tilkynningu þar sem sagði að lögregla gæti vart sinnt öllum verkefnum sem berast inn á borð. Brýnum verkefnum verður raðað í forgang.

Lögreglumenn sem fréttastofa hefur náð sambandi við á landsbyggðinni segja sömu sögu. Þorri lögreglumanna tilkynnti veikindi í morgun en sá mannskapur, sem mætti, dugar til að sinna brýnustu verkefnum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV