Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Meirihluti hlynntur staðgöngumæðrun

21.03.2016 - 11:27
Mynd með færslu
Á umræddum ársfjórðungi fæddust 950 börn. Mynd: RÚV - Kastljós
Rúmlega helmingur landsmanna er hlynntur staðgöngumæðrun samkvæmt nýrri könnun. Karlar eru jákvæðari fyrir því en konur en háskólamenntaðir vilja síður leyfa staðgöngumæðrun en þeir sem hafa styttri skólagöngu.

Frumvarp heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun var flutt á haustþingi en það er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd. Í meirihluta umsagna um frumvarpið er ýmist lýst andstöðu eða efasemdum um að það verði að lögum. Landlæknir telur að það muni auka kostnað og flækjustig heilbrigðisþjónustunnar. Mannréttindastofa telur of mikinn ágreining um staðgöngumæðrun, Jafnréttisstofa segir nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar og félag íslenskra hjúkrunarfræðinga segir innleiðingu staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni ekki tímabæra.

Maskína kannaði viðhorf 857 manns til staðgöngumæðrunar. 805 tóku afstöðu og sögðust tæplega 52 prósent þeirra hlynnt því að leyfa staðgöngumæðrun. Karlar voru almennt jákvæðari fyrir því en konur, 56 prósent karla á móti 47-48 prósentum kvenna. 45 prósent háskólamenntaðra vilja leyfa staðgöngumæðrun en tæpur meirilhuti þeirra sem hafa styttri skólagöngu.

Rúmlega helmingur kjósenda stjórnmálaflokkanna vill leyfa staðgöngumæðrun. Þar skera kjósendur Samfylkingar og Vinstri Grænna sig nokkuð úr. 41 prósent kjósenda Samfylkingar vill leyfa staðgöngumæðrun en aðeins 26 prósent kjósenda Vinstri grænna. 

Í könnuninni var notast við eftirfarandi skilgreiningu: „Staðgöngumæðrun í víðum skilningi er þegar kona (staðgöngumóðir) gengur með barn fyrir par eða einstakling (verðandi foreldra eða foreldri) og hefur fallist á fyrir meðgöngu að afhenda þeim barnið eftir fæðingu.“ Svarendur koma úr Þjóðgátt Maskínu sem er hópur sem er dreginn úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Könnunin var framkvæmd dagana 3-9 mars.