Meirihluti athugasemda á móti Þ-H leið

06.09.2019 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
44 athugasemdir bárust vegna tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006-2018. Athugasemdirnar snúast um legu nýs Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi að Skálanesi, svokallaða Þ-H leið. Með þeirri leið yrði lagður vegur um Teigsskóg og Þorskafjörður, Djúpifjörður og Gufufjörður þveraðir. Meirihluti athugasemda er gegn Þ-H leiðinni og kallað eftir því að leið D2, jarðgöng, verði fremur valin.

Skipulagsstofnun leggur ekki fram athugasemdir við leiðarval. Hún undirstrikar þó ábyrgð sveitarfélagsins í framkvæmdinni og segir að móta þurfi stefnu um endurheimt þess votlendis sem raskist með framkvæmdinni. Í áliti Skipulagsstofnunar árið 2017 kom fram að D2 væri sú leið sem hefði minnst umhverfisáhrif. D2-leiðin fylgir fyrri veglínu að megninu til og fer undir Hjallaháls með jarðgöngum.

Óska eftir því að framkvæmdir valdi sem minnstu raski

Landvernd og Ungir umhverfissinnar gagnrýna leiðarvalið og benda á D2 sem vænlegri kost. Í athugasemd Náttúrufræðistofnunar er það rakið að stofnunin lagðist gegn Þ-H leiðinni og mælti fremur með D2. Verði leið Þ-H fyrir valinu óski stofnunin eftir því að séð verði til þess að framkvæmdir valdi sem minnstu raski á náttúru þar sem farið er nálægt arnaróðulum, um Teigsskóg og firðir þveraðir.

Vegagerðin sendi inn athugasemd. Hún lagði Þ-H leiðina upphaflega til og telur hana vænlegasta og öruggasta kostinn. Vesturbyggð og Strandabyggð gera engar athugasemdir. Jafnframt fagnar Vesturbyggð því að breytingin var auglýst.

Ekki hægt að kæra aðalskipulagsbreytingar

Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir næsta skref að svara öllum athugasemdum og það verði gert vel og skilmerkilega. Að því loknu er tillagan auglýst og þá verður hægt að veita framkvæmdaleyfi. Hægt verður að kæra framkvæmdaleyfið en ekki aðalskipulagið.

„Við reynum að vinna þetta hratt og vel svo málið gangi vel fyrir sig,“ segir Tryggvi.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi