Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meiri eftirfylgni á nýju áfangaheimili

Mynd með færslu
Akureyri í vetrarbúningi. Mynd:
Undirbúningur stendur nú yfir fyrir stofnun áfangaheimilis á Akureyri. Hjálpræðisherinn á Akureyri hyggst reka áfangaheimili fyrir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára sem hefur lokið vímuefna- eða áfengismeðferð. Fyrirhugað er að gera 5-6 íbúðir í húsnæði hjálpræðishersins að Hvannavöllum.

Hannes Bjarnason forstöðumaður Hjálpræðishersins á Akureyri segir að undirbúningur að verkefninu hafi hafist af alvöru fyrir um ári síðan. Hjálpræðisherinn hafi viljað hjálpa til í samfélaginu og leitað til Akureyrarbæjar um hvernig þeir gætu orðið til gagns. Eftir viðræður við bæjarfulltrúa hafi áfangaheimili orðið ofan á. Áfangaheimili fyrir fólk sem væri nýkomið úr meðferð. Hann segir þörfina fyrir áfangaheimili mikla enda ekkert slíkt í bænum. 

Meiri eftirfylgni

Heimilið verði frábrugðið öðrum áfangaheimilum að því leyti að mikil eftirfylgni verði með hverjum og einum. Fólkinu sé fylgt út í lífið, eigi þar með auðveldara með að fóta sig og minni líkur á að það „falli“. Heimilið sé fyrir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára sem hafi nýlokið meðferð og sé edrú. Hann segir þetta fyrsta áfangaheimili Hjálpræðishersins á Íslandi en fyrirmyndin sé norsk, hjálpræðisherinn í Noregi reki mörg áfangaheimili og meðferðarstöðvar. 

Húsnæði Hjálpræðishersins að Hvannavöllum verður breytt og 5-6 litlar einstaklingsíbúðir útbúnar þar. Á heimilinu verður búsetuskilyrði og íbúar sjá um sig sjálfir rétt eins og heima hjá sér. Ásamt skóla eða vinnu verði sérsniðin áætlun að hverjum og einum. Það miðist allt við það að byggja einstaklinginn þannig upp að hann verði sjálfstæður og tilbúinn að halda áfram með lífið. Ekki sé hægt að setja tímaramma á búsetu fólks þar sem það sé á misjöfnum stað eftir meðferð.

Ráðast þarf í miklar breytingar á húsnæði Hjálpræðishersins en það hefur ekki nýst sem skildi síðustu ár. Hjálpræðisherinn stendur undir kostnaði breytinganna sem er áætlaður um 60-80 milljónir. Hannes segir gengið út frá því að fá það til baka í leigu frá íbúum á næstu 15 árum. Akureyri geti verið til fyrirmyndar með allt sem snúi að búsetu fólks, að hjálpa fólki sem hafi orðið undir, á fætur aftur og áfram í lífinu. Þetta sé aðeins fyrsta skrefið.

Vilji allra að koma þessu á fót

Samningaviðræður eru í gangi og þótt ekki hafi verið gengið frá samningum milli Hjálpræðishersins og Akureyrarbæjar segir Heimir Haraldsson formaður velferðarráðs ljóst að það sé vilji allra að koma þessu á fót. Hjálpræðisherinn sjái um rekstur heimilisins og bærinn kaupi þjónustuna af þeim. Þá sjái Akureyrarbær um að þjónusta fólkið og veita faglegan stuðning. 

Þægilegra að veita þjónustuna í heimabyggð

Akureyrarbær hefur þegar samþykkt að verja 5,6 milljónum króna í rekstrarþjónustu heimilisins á næsta ári sem Heimir segir að sé gert með þeirri von um að samningar náist, framkvæmdir gangi upp og starfsemi geti hafist næsta haust. Nú sé Akureyrarbær að greiða kostnað vegna dvalar fólks á áfangaheimilum í öðrum sveitarfélögum. Þægilegra sé fyrir alla að geta veitt þessa þjónustu í heimabyggð og líklegra að hópurinn fái betri þjónustu og eftirfylgni sé það vilji þess að búa hérna. Mesti ávinningurinn í hans huga sé þó að þetta fólk nái heilsu, ekki sé hægt að meta það í krónum.