Meiri áhyggjur af efnahagslegum áhrifum en veikindum

25.03.2020 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Hulda Geirsdóttir - rúv
Mun fleiri hafa áhyggjur af áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag en hafa áhyggjur af því að smitast sjálfir. Næstum áttatíu prósent svarenda segist hafa frekar miklar eða mjög miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum veirunnar hérlendis en einungis þriðjungur hefur miklar áhyggjur af því að smitast sjálfur. 

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR

Þá segist um þriðjungur hafa miklar áhyggjur af því að verða fyrir alvarlegu fjárhagslegu tjóni sökum COVID-19 en mun færri hafa miklar áhyggjur af því að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni, eða um fimmtungur. 

Svarendur á aldrinum 18-29 ára reyndust ólíklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa miklar áhyggjur af að smitast af kórónaveirunni, eða fjórðungur þeirra. Svarendur 30-49 ára reyndust líklegastir til að segjast hafa miklar áhyggjur af því að smitast, eða tæpur þriðjungur. Svarendur 68 ára og eldri voru líklegastir til að segjast hafa miklar áhyggjur af að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni af völdum veirunnar, eða þriðjungur þeirra. Svarendur á aldrinum 30-49 ára voru líklegastir til að hafa mjög miklar áhyggjur af áhrifum hennar á íslenskan efnahag.

Nokkurn mun var einnig að sjá eftir stjórnmálaskoðunum svarenda.  Stuðningsfólk Viðreisnar (78%) reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast hafa miklar áhyggjur af áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag. Stuðningsfólk Vinstri-grænna (37%) reyndist líklegra en aðrir til að segjast hafa miklar áhyggjur af að smitast sjálft af kórónaveirunni.

Þá höfðu konur meiri áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum veirunnar en karlar.

 

Um framkvæmd könnunarinnar:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.081 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 18. til 20. mars 2020

Spurt var: „Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú í dag af...“ (atriði A til D birtust í handahófskenndri röð):
A: „...áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag“, B: „...að smitast sjálf(ur) af kórónaveirunni“,
C: „...að verða fyrir alvarlegu fjárhagslegu tjóni af völdum útbreiðslu kórónaveirunnar“ og D: „...að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni af völdum útbreiðslu kórónaveirunnar“ .
Svarmöguleikar voru: „Mjög litlar eða engar“, „Frekar litlar“, „Hvorki miklar né litlar“, „Frekar miklar“, „Mjög miklar“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Svarhlutfall var 98,6% við atriði A, 99,1% við atriði B, 99,0% við atriði C og 98,8% við atriði D.