Meira en milljarður dýra drepist í Ástralíu

Mynd: EPA / EPA
Eftir fordæmalausa skógarelda og þurrka í Ástralíu fór loksins að rigna. Eldur er slokknaður víðast hvar en ljóst er að eyðileggingin er gífurleg. Talið er að yfir milljarður villtra dýra hafi drepist og þar með talið tíu þúsund kóalabirnir í Nýja Suður Wales. Þá hafa fjölmörg dýr drepist sem voru þá þegar í útrýmingarhættu. 

Rigning eftir fordæmalausa þurrka og gróðurelda

Það sígur á sumarið, febrúar er síðasti sumarmánuður Ástrala. Gróður- og skógareldarnir hérna í Ástralíu hafa nú logað í meira en fimm mánuði. Mismikið eftir veðri og vindum en alltaf þó einhvers staðar. Eftir fordæmalausa þurrka og gróðurelda kom loksins rigning sem reyndist ómetanleg hjálp við slökkvistörf. Þá tókst til dæmis að slökkva eldinn við Linfield Park Road í norðurhluta Nýja Suður-Wales
sem hafði logað í sjö mánuði. Það er ýmist í ökkla eða eyra og til dæmis féll þrjátíu ára rigningarmet í Sydney.

Hafa náð tökum á öllum eldum

Þótt eldar logi enn á nokkrum stöðum sunnarlega í Nýja Suður-Wales þá hefur nú loksins tekist að ná stjórn á þeim öllum, eins og Rob Rogers hjá dreifbýlisslökkviliði Nýja Suður-Wales greinir frá: „Tekist hefur að ná stjórn á öllum eldum í Nýja Suður-Wales, góðar fréttir. Ekki er búið að slökkva þá alla í suðurhlutanum en búið er að ná tökum á þeim og þá er hægt að huga að endurbótum.“

Svæði á stærð við eitt og hálft Ísland hefur brunnið

Nær sextán milljónir hektara hafa brunnið í Ástralíu, sem eru nær 160 þúsund ferkílómetrar, eins og eitt og hálft Ísland. Í það minnsta þrjátíu og þrír hafa látist í eldunum og 3500 heimili brunnið. En skógurinn sjálfur er líka heimili, - heimili óteljandi lífvera af öllum stærðum og gerðum og margar þeirra finnast hvergi annarsstaðar í heiminum.

Kóalabjörninn sem beindi sjónum að dýralífinu

Það vakti heimsathygli þegar Toni Doherty svipti sig klæðum til að bjarga hjálparþurfi kóalabirni í eldunum. Kóalabjörninn var fluttur á Kóalaspítala til aðhlynningar og var nefndur Ellenborough Lewis eftir barnabarni bjargvættar síns.

En Ellenborough Lewis lifði brunann ekki af og sömu sögu er að segja af jafnvel tíu þúsund öðrum kóalabjörnum. Honum tókst þó að beina sjónum fólks að þeim fjölda dýra sem hefur drepist eða tapað búsvæðum sínum í eldunum. 

Yfir milljarður dýra drepist

Það hefur verið áætlað að yfir milljarður dýra hafi drepist í Ástralíu í eldunum. Þessi tala er komin frá Chris Dickman, umhverfisfræðingi við Sydney-háskóla. „Þetta er fordæmalaust. Eyðileggingin og umfangið á jafn skömmum tíma. Þetta er hræðilegur atburður í ljósi landsvæðisins og dýranna sem hafa orðið fyrir barðinu á eldunum,“ segir Dickman í viðtali við bandaríska útvarpsstöð. Dickman áætlar að yfir milljarður dýra hafi drepist og hefur reiknað það út frá skýrslu sem var unnin fyrir nokkrum árum til að meta áhrif skógareyðingar á dýralíf í Nýja Suður Wales. Í henni var stuðst við viðurkenndar áætlanir um hversu þétt spendýr, fuglar og skriðdýr búa. 

Kóalabirnir komust ekki í öryggið

Eins og áður hefur verið fjallað um í Heimskviðum eru eldar í Ástralíu ekki nýir af nálinni. Í þetta sinn voru þeir þó óvenjumiklir og öflugir. Það getur haft mikil áhrif á afkomu dýra, og eldur er ekki það sama og eldur. Eðlisávísun kóalabjarna er til dæmis að klifra hátt upp í laufkrónur trjánna þegar skógareldar geisa og bíða þá af sér. Það hljómar kannski heimskulega en það er ástæða fyrir því að þeir gera það, það hefur virkað. Andrew Daly er kóalahirðir í Taronga-dýragarðinum í Sydney. „Þegar eitthvað herjar að þeim klifra þeir hátt upp í trén því að oftast eru þeir öryggir þar. Í smærri eldum brenna ekki endilega laufkrónur trjánna heldur aðallega skógarbotninn. Í þessum umfangsmiklu eldum brunnu hins vegar einnig laufkrónur trjánna og kóalabirnirnir með.“

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir
Andrew Daly, kóalahirðir í Taronga-dýragarðinum í Sydney.

Langvarandi þurrkar haft mikil áhrif 

Eldarnir komu í kjölfar langvarandi þurrka. Þurrkarnir höfðu til dæmis þau áhrif að svæði sem að brenna að jafnaði ekki – eins og í regnskógum og á fjallstopppum brunnu líka. Svæði sem hefðu annars veitt dýrum skjól

Og þurrkarnir hafa einnig gert mörgum dýrum erfitt fyrir. Kóalabirnir nærast til dæmis eingöngu á eucalyptus-trjám eða tröllatrjám. „Vegna þurrka taka trén upp minna vatn en ella og því er jafnframt minna vatn í laufum trjánna og kóalabirnir fá því ekki nægilegt vatn úr fæðunni,“ segir Andrew. Það gerir það að verkum að kóalabirnir koma í auknum mæli niður úr trjánum til að drekka úr pollum og lækjum. Á jörðinni eru kóalabirnir hins vegar berskjaldaðri en annars. Bæði gagnvart ágengum dýrategunum eins og köttum og refum en líka gagnvart tryllitækum mannsins á vegunum. 

Stoppaði hjólreiðafólk og fékk vatn

Hann slapp vel þyrsti kóalabjörninn sem að álpaðist út á götu í grennd við Adelaide í lok desember. Þar stoppaði hann hjólreiðafólk og drakk vatnið þeirra – úr sjö brúsum áður en þau komu honum af veginum aftur.

Lengi verið gengið á búsvæði dýra

Það hefur lengi mætt á áströlsku dýralífi. Búsvæði hafa verið eyðilöggð til að rýma fyrir umsvifum mannsins, framandi dýrategundir hafa haft afgerandi áhrif á vistkerfið og svo eru það áhrif loftslagsbreytinga. Um 34 tegundir og undirtegundir innfæddra ástralskra spendýra hafa orðið útdauðar á síðustu 200 árum, eftir að Evrópumaðurinn settist að, og hærra hlutfall þekkist ekki í heiminum.

Stór hluti kóalabjarna með klamydíu

Til viðbótar við allt þetta þá þjáist stór hluti kóalabjarna af kynsjúkdómnum klamydíu. „Klamydía er mjög algeng meðal kóalabjarna. Karldýrin geta borið sjúkdóminn en sýna ekki einkenni. Þeir geta þó smitað kvendýrin. Hjá kvendýrunum getur sjúkdómurinn haft áhrif á augun og sjónina sem og gert þær ófrjóar,“ útskýrir Andrew kóalahirðir. Þá geta afkvæmi smitast af klamidíu þegar þau éta skít móður sinnar, sem þau gera þegar þau eru nokkurra mánaða gömul. Talið er að klamidía hafi borist í kóalabirni frá búfénaði.

Forðuðu tólf hraustum kóalabjörnum frá eldunum

Eitt af hlutverkum Andrews, kóalahirðis, í Taronga-dýragarðinum er að líta eftir 12 villtum kóalabjörnum sem var forðað úr þjóðgarði í Bláfjöllum Ástralíu þegar eldar stefndu á heimkynni þeirra fyrir nokkrum mánuðum. Þeir eru óvenjuhraustir og til dæmis meðal fárra sem eru ekki með klamydíu. Nokkrum vikum eftir að kóalabirnirnir voru fluttir í dýragarðinn brunnu heimkynni þeirra. Þeir fá að fara aftur heim þegar skógurinn hefur náð sér aftur á strik og þar með tryggt að þeir hafi nóg að éta.

Mynd: Halla Ólafsdóttir / Halla Ólafsdóttir
Kóalabirnir úr Bláfjöllum Ástrala. Viðtal Höllu við Andrew Daly.

Taronga-dýragarðurinn er meðal þeirra sem leggja sitt af mörkum til að koma dýrum til bjargar, eins og ýmis dýraverndunarsamtök og félagasamtök. En eins og með slökkviliðsmennina sem berjast við skógarelda í Ástralíu eru margir þeirra sem að koma dýrum til bjargar sjálfboðaliðar. 

Dýralæknir meðal sjálfboðaliða

Karen Viggers er dýralæknir sem hefur sérhæft sig í viltum dýrum og er reyndar líka rithöfundur. Hún býr í Canberra, höfuðborg Ástralíu, sem er nokkur hundruð kílómetra suðvestan við Sydney og skammt frá suðurhluta Nýja Suður-Wales þar sem miklir eldar loguðu um áramótin. Karen er ein þeirra sem vildu leggja sitt af mörkum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir
Karen Viggers, dýralæknir og rithöfundur.

„Ég vildi sjá hvað ég gæti gert með mína þekkingu á vettvangi,“ segir hún. Karen segir að fyrstu tvær vikurnar eftir eldanna séu mörg dýr skotin til að lina þjáningar þeirra. Hún kom tveimur vikum eftir eldanna og reyndi þá að aðstoða sjálfboðaliða við umönnun. „Ég aðstoðaði við að skoða brunasár tveimur vikum eftir eldana og leggja mat á bata dýranna, hvort að þau ættu möguleika á að spjara sig aftur í náttúrunni eða hvort þeirra biði langvarandi þjáning og því betra að aflífa þau.“Karen segir að það sé frekar hægt að hjálpa ungviði og litlum dýrum en fullvaxta stórum dýrum. Fullorðnar kengúrur forðist til dæmis návígi við manninn og því sé aðeins hægt að lina þjáningar þeirra sem hafa brunnið illa með því að aflífa þær. 

Pokar pokadýra geta bjargað afkvæmum

Öll þekktustu spendýr Ástralíu eru pokadýr og pokarnir geta varið afkvæmin. Andrew kóalahirðir bendir til dæmis á að finnist dautt eða illa slasað kvendýr, til dæmis kóalabjörn eða kengúra, þá gæti leynst afkvæmi í pokanum sem sé hægt að bjarga. „Svo ef að það er kannað hvort að það sé afkvæmi í pokanum þá er stundum hægt að bjarga því, veita athvarf og sleppa svo aftur út í náttúruna.“

Prjónaðir og saumaðir pokar streyma til Ástralíu

Um allan heim finnur fólk til með áströlsku dýrunum sem verða fyrir barðinu á skógareldunum. Það hefur ef til vill einna best sýnt sig í þeim ótrúlega fjölda prónaðra og saumaðra poka sem að hafa borist til Ástralíu á undanförnum mánuðum, ætlaðir ungviði pokadýra í umsjón manna. Þeir eru nýttir til að veita ungviði í umsjón manna öryggi og hlýju sem þeir eru vanir að finna í pokum mæðra sinna. 

Þannig hefur fólk víða um heim fundið leið til að leggja sitt af mörkum; tengdaamma mín á Ísafirði sem og fjölmenn prjónasamkoma á KEX hostel í Reykjavík. Það er reyndar svo komið að bjargvættir pokadýranna hér í Ástralíu taka ekki lengur við pokum. 

Mikilvægt að tryggja búsvæði dýranna

Karen dýralæknir bendir á að vilji fólk áfram leggja sitt af mörkum 
þá skipti einna mestu máli að styðja við þá sem að vinna að því að tryggja og endurheimta búsvæði dýranna. Dýrin sem að hafi lifað af eldanna þurfi að eiga öruggt athvarf. „Þótt fólki líði kannski ekki eins og að það sé hjálpa þá er sú hjálp mikilvæg til framtíðar,“ segir hún. 

Ástæða til að hafa áhyggjur af litlum pokadýrum og ávaxtaleðurblökum

Myndband af þessum skjó fór í dreifingu á samfélagsmiðlum þegar eldarnir voru í hámarki. Ótal dýrategundir hafa orðið fyrir barðinu á eldunum þótt ef til vill hafi mest verið fjallað kóalabirni. Andrew hefur til dæmis áhyggjur af ávaxtaleðurblökum. Það eru stórar leðurblökur sem eru líka kallaðar fljúgandi refir enda á stærð við hrafna og gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfinu. „Þær frjóvga til dæmis eucalyptustrén. Mikið brottfall meðal þeirra geti haft keðjuverkandi áhrif; á trén og þar með á þau dýr sem lifa á eucalyptustrjám, þar með talinn kóalabjörninn,“ segir Andrew.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Ávaxtaleðurblaka (Fruitbat/flying fox).

Karen dýraæknir nefnir einnig dýrin sem hafa verið við það að deyja út, til dæmis nokkur lítil pokadýr: Greater glider; lítið næturdýr sem heldur sig í eucalyptustrjánum. Það líkist að vissu leyti lemúr, með langt skott, stór augu og stór eyru. Þá nefnir hún long nosed potteroo, lítið pokadýr sem tilheyrir fjölskyldu rottu-kengúra og Kengúrueyju-dunnart sem líkist stórri mús með langt trýni. Karen segir einnig ástæðu til að hafa áhyggjur af Glossy Black-Cockatoo, stórum svörtum páfagauk í útrýmingarhættu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Rottukengúra, eða long nosed potteroo.

Karen Viggers segir að mörgum dýrategundum hafi verið ýtt út á ystu nöf í þessum eldum og hafa beri í huga að það sé til viðbótar við ágang mannsins á búsvæði þeirra, til dæmis með skógarhöggi til margra ára. Eldarnir gætu reynst kornið sem fyllir mælinn. 

Framundan er tími endurnýjunar og bata. Dýralæknirinn Karen telur náttúruna ná sér fljótt aftur á strik, sérstaklega láti maðurinn hana í friði, æði til dæmis ekki af stað með skógarhögg sem er talið hægja á endurnýjun skógarins og gera dýrategundum enn erfiðara um vik.

Mynd: Halla Ólafsdóttir / Skype
Karen Viggers ræðir við Höllu Ólafsdóttur í gegnum Skype.

Almenningi er annt um dýrin

Almenningur hefur lagt til mikið fé til dýraathvarfa, dýraspítala og dýraverndunarsamtaka. Til dæmis ætlaði einn helsti kóalaspítali Ástralíu kóalaspítalinn í Port Maquiere, þangað sem Ellenborough Lewis var fluttur að safna 25 þúsund dollurum, eða rúmum tveimur milljónum íslenskra króna til að bregðast við áhrifum eldanna. Nú nokkrum mánuðum síðar hefur spítalinn safnað sjö og hálfri milljón ástralskra dollara, sem eru 640 milljónir íslenskra króna.

Kóalaspítalinn í Port Macquarie hefur útbúið hátt í hundrað drykkjarstöðvar fyrir kóalabirni og þá ætlar spítalinn að láta hluta peninganna renna til nýs athvarfs fyrir kóalabirni sem á að vera það stærsta sinnar tegundar. Sum samtök hafa gripið til þess ráðs að dreifa mat. Karen bendir þó á að bæði matur og drykkur úr mannanna höndum geti verið vandmeðfarin lausn. Of mikil inngrip geti líka skapað ójafnvægi í vistkerfinu og sett famvindu endurnýjunar og bata úr skorðum. 

Tímabært að grípa til aðgerða

Það rignir á ný. Rigningin er nauðsynleg fyrir endurnýjun skóganna. En þótt náttúran sé seig spyr Karen sig hvernig hún komi til með að ráða við tíða elda eins og þá sem hafa geisað síðustu mánuði. Eins og fram hefur komið í fyrri umfjöllun Heimskviðna um skógareldana í Ástralíu þá varpar aðgerðarleys stjórnvalda í loftslagsmálum ekki ljósi á hug íbúa landsins. Karen segir það liggja fyrir að áhrifa loftslagsbreytinga gæti nú þegar en að nú ríði á grípa til aðgerða, setja pressu á stjórnvöld bæði heimafyrir og frá alþjóðasamfélaginu til að draga úr útblæstri gróðurhúsaalofttegunda og draga úr áhrifum þeirra á skóga og dýralíf til framtíðar. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi