Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meira álag á Innu „en við höfum áður upplifað“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Gríðarlegt álag hefur verið á náms- og kennslukerfinu Innu það sem af er degi, og notendur kerfisins hafa fundið fyrir töluverðum truflunum. Samkvæmt upplýsingum frá Advania, sem rekur kerfið, hafa allir framhaldsskólar á landinu vísað nemendum sínum á Innu svo þeir geti sótt sér upplýsingar um fyrirkomulag náms á næstu dögum og vikum.

„Við finnum nú fyrir meira álagi á kerfið en við höfum áður upplifað og erum að grípa til ráðstafana vegna þess. Við fylgjumst grannt með framvindu mála og erum í góðu sambandi við skólastjórnendur,“ segir Þóra Tómasdóttir, sérfræðingur í stafrænni miðlun og markaðsmálum hjá Advania.

Þóra segir ljóst að sveiflur verði á svartíma Innu á meðan verið sé að fínstilla kerfið með hliðsjón af álaginu. Álagið nú sé á aðra þætti en venjulega, því kennsla fari nú mikið til fram í formi fjarnáms, sem nýti aðra þætti kerfisins en hefðbundið nám.

Þóra bendir á að á innskráningarsíðum Innu megi sjá tilkynningar um stöðu kerfisins hverju sinni.