Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meira aðhald og hagræðing í vetrarþjónustu

24.01.2020 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Halli á rekstri vetrarþjónustu Vegagerðarinnar er nú um milljarður króna. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er lagður til tíu prósenta niðurskurður í vetrarþjónustu. Viðbótarkostnaður vegna aðventustormsins er um 180 milljónir. Kostnaður við vetrarþjónustu er langmestur á suðvesturhorninu.

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að hallinn hafi verið að safnast upp síðustu þrjú ár. Margt spili inn í enda sé sveiflan mikil milli vetra. Óveðurstíð leiki þar stórt hlutverk, til að mynda sé áætlað að viðbótarkostnaður Vegagerðarinnar vegna aðventustormsins í desember sé um 180 milljónir króna. G. Pétur segir að reksturinn hafi oft verið réttur af með fjáraukalögum en sú sé ekki raunin nú. Því sé verið að kanna leiðir til að hagræða í rekstri. 

Tillögur um 10% niðurskurð

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var farið yfir sparnaðartillögur til að mæta þessum halla á fundi hjá Vegagerðinni. Á fundinum var talað um allt að tíu prósenta niðurskurð á vetrarþjónustu, það er hálkuvörnum og snjómokstri.

Aðspurður segir G. Pétur að það eigi ekki að draga úr þjónustunni. Reynt verði að ná hallanum niður með meira aðhaldi og hagræðingum. Ekki verði aukið við þjónustuna en áfram verði mokað samkvæmt núgildandi reglum um snjómokstur.  

Mestur kostnaður á suðvesturhorninu

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur árlegur kostnaður við vetrarþjónustu verið á bilinu 3-4 milljarðar síðustu fimm árin. Áætlaður kostnaður fyrir árið 2019 voru þrír milljarðar. Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir en má áætla að hann fari fram úr áætlun. Dýrastur var veturinn 2014-2015 sem kostaði mikið bæði í hálkuvörnum og snjómokstri. Kostnaður er langmestur á suðvesturhorninu þar sem umferðin er mest. Þar er sólahringsþjónusta og miklar hálkuvarnir.

Kostnaður við vetrarþjónustu er að stórum hluta fastur, þ.e.a.s. kostnaður við mannskap og tæki ásamt upplýsingagjöf. Veðurfar ræður síðan miklu um endanleg fjárútlát. Kostnaður við þjónustuna eykst í takt við tíðni storma, hitasveiflur og snjóalög, viðvarandi skafrenningur kallar til að mynda á stöðuga þjónustu. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Áður var sagt að halli væri á rekstri Vegagerðarinnar, hið rétt er að halli er á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar.