Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Megxit: Hvað gera Harry og Meghan nú?

25.01.2020 - 07:30
Mynd: EPA / EPA
Hertogahjónin af Sussex, Harry Bretaprins og Meghan, vilja draga sig í hlé, draga úr embættisverkum á vegum bresku konungsfjölskyldunnar og standa á eigin fótum. Það gera þau meðal annars til að forða sér og sínum undan vökulum augum fjölmiðla. En er víst að ákvörðun þeirra verði til þess að draga úr áhuga fjölmiðla og almennings á þeim Harry og Meghan?

Í síðastliðinni viku mættum við mörg hver til vinnu, það gerði líka þessi maður hér. Á verkefnalistanum hans þann daginn var meðal annars að lýsa yfir stuðningi við átak í andlegri heilsu rúbbí leikmanna. 

Og það var fleira á dagskránni hjá  manninum þennan fimmtudag, þann 16. janúar. Hann tilkynnti meðal annars að árlegt íþróttamót fyrrum hermanna færi fram í Dusseldorf eftir tvö ár, en í ár lægi leiðin til Haag. 

Þessi maður er Harry Bretaprins. Ástæðan fyrir því að við vitum svo nákvæma dagskrá á þessum einungis meðal áhugaverða vinnudegi Harrys er sú að þetta var í fyrsta sinn sem hann sinnti meðfæddum starfskyldum sínum eftir að hann opinberaði vilja til að draga úr slíkum störfum. 

Já sama hvort þið lesendur góðir eru yfirlýstir Royalistar eða í hópi fólks sem fussar og sveiar yfir tíðum fregnum af kóngafólki, hefur það líklega ekki farið framhjá ykkur að hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan, hafa tekið ákvörðun um að draga verulega úr embættisskyldum sínum sem fylgja meðfæddu hlutverki Harrys. 

Blásið var til fundar í Sandringham kastala um leið og Harry og Meghan upplýstu um vilja sinn. Fundinn sátu Elísabet Englandsdottning, Karl, elsti sonur hennar, og synir hans, bræðurnir Vilhjálmur og Harry. Lendingin varð samkomulag um að sá síðastnefndi og eiginkona hans segi sig frá öllum konunglegum skyldum sínum, sem fylgt hafa prinsinum frá fæðingu. 

Jonathan Pie, fréttamaðurinn sem leikinn er af Tom Walker, orðar líklega hugsanir einhverra á málinu, í myndskeiðinu hér að ofan. Er þetta svona rosaleg stórfrétt? Að ungt vellauðugt fólk ætli að reyna fyrir sér úti í hinum stóra heimi. 

En sama hvort svarið við þeirri spurningu sé já eða nei er það engu að síður staðreynd að fjölmiðlar um heim allan hafa gert sér mat úr tíðindunum undanfarnar vikur, og munu gera áfram.  

„Það var engin önnur leið“

Breska þjóðin stóð á öndinni, hvað þýðir þetta spurðu mörg? Breska ríkisútvarpið svaraði kallinu og spurningum lesenda í sérstakri veffærslu

Er Harry enn sjötti í erftaröð krúnunnar?
Hvað gerist ef Harry og Meghan skilja?
Hvað þýðir þetta fyrir son þeirra, Archie?

Og fyrir ykkur sem deilið áhyggjum með þessum Bretum upplýsist það hér með að Harry er enn sá sjötti í erfðaröðinni, það þarf lagabreytingu til að breyta því, hann mun enn tilheyra bresku konungsfjölskyldunni ef þau skyldu skilja og þetta þýðir í raun sáralítið fyrir Archie. Foreldrar hans ákváðu að hann skyldi ekki bera neina titla þegar hann fæddist. Sömu foreldrar sem vonast nú til að fá að ala hann upp fjarri sviðsljósinu

Ákvörðunin var erfið og tók langan tíma. En það var enginn annar möguleiki í stöðunni sagði Harry í ræðu sem hann hélt á góðgerðarkvöldverði fyrir eyðnismituð börn í Afríku á dögunum. 

Enginn annar möguleiki í stöðunni. Þetta er orðalag sem komið er í öngstræti notar. Af hverju höfðu þau ekki um aðra kosti að velja?

Feimnir prinsar í leikskóla

Það er líklega ekki ofsögum sagt að fullyrða að fylgst hafi verið með hverju fótmáli Harrys frá því að hann fæddist. Meira að segja hér á landi. 

Díana prinsessa, 23 ára, heldur áfram að vekja athygli og aðdáun. Nýjasta afrek hennar var að yfirgefa fæðingardeildina aðeins einum sólarhring eftir að litli prinsinn kom í heiminn. Það kom nú ekki til af góðu. Prinsessan fékk nefnilega ekki svefnfrið fyrir aðdáendum á spítalanaum og taldi bæði sér og syni sínum betur borgið heima í hölll í ró og næði.

Textann hér að ofan má finna í frétt í Vikunni í nóvember árið 1984.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot

Í frétt í Morgunblaðinu í október árið 1987 segir meðal annars:

Harry er orðinn þriggja ára og kominn tími til að hefja skólagöngu og horfast í augu við raunveruleikann. Harry litla til huggunar getum við sagt að hann þarf ekki að mæta í leikskólann nema tvisvar í viku, þrjá tíma í einu. Það ætti ekki að vera honum ofraun.

Fyrir okkur flest, sem höfum í mesta lagi verið spurð um eftirlætis mat í spurningu vikunnar á síðum dagblaðanna, er þetta veruleiki sem við eigum erfitt með að setja okkur inn í. Að vera heimsþekkt frá fæðingu. Og það er nokkuð sem Harry og Meghan vilja nú hlífa sér og sínum við. 

Þetta er til dæmis frétt sem birtist fyrr í vikunni og er líklega eitt dæmi um hvað Meghan og Harry vilja gjarnan vera án. Þar segir meðal annars: „Sam­fé­lags­miðlar loga eftir að nýjar myndir birtust af Meg­han Mark­le, her­toga­ynjunni af Sus­sex, í göngu­túr með son sinn Archie og hundana sína tvo. Tak Meg­han á Archie virtist vekja hvað mesta at­hygli og hefur hún verið gagn­rýnd harð­lega fyrir að gæta ekki fyllsta öryggis þegar kemur að syni hennar.“

Nú er eflaust mörgum sem finnst kannski ekki yfir miklu að kvarta hjá fólki sem fæðist inn í hallir og stöðuga innkomu ævina á enda, þó þau þurfi að klippa á nokkra borða og sinna stöku góðgerðastarfi. Og að með þeim sé fylgst. 

Mynd með færslu
 Mynd: Newscorp - The Sun

En fjölmiðlaumfjöllunin sem fylgir þessu meðfædda starfi vóg afar þungt í ákvörðun Harry og Meghan. Því fjölmiðlar hafa ekki bara birt fregnir af því hvernig Meghan heldur á barninu sínu. Síðan það fór fyrst að spyrjast út að Bretprinsinn væri að gera hosur sínar grænar fyrir bandarískri leikkonu hafa ófáir blekdropar verið nýttir í að prenta fréttir af þeim Harry og Meghan. 

Mörg úr fjölskyldu Meghan virtust taka þessari óvæntu athygli fagnandi og breiddu úr sér á síðum margra blaðanna með frásögnum af því hvað Meghan sé ómöguleg. Þannig skrifaði hálfbróðir Meghan, Thomas Markle yngri, opinbert bréf, sem birtist í UZ Magazine, þar sem hann hvatti Harry til að hætta við að giftast systur sinni. Harry er greinilega ekki áskrifandi af því blaði því brúðkaupið varð nú samt. 

Hér má lesa umfjöllun um brúðkaup Harrys og Meghan. 

Talsvert hefur einnig verið skrifað og skrafað um samband Meghan við föður sinn, Thomas Markle. Hann var ekki viðstaddur konunglegt brúðkaup þeirra hjóna af heilsufarsástæðum, en var boðinn og búinn að mæta í viðtal hjá Sky news þegar nýjustu fregnirnar bárust af dótturinn á dögunum. 

„Þetta veldur vonbrigðum. Hún fékk uppfylltan draum allra stúlkna, allar ungar stúlkur dreymdi um að verða prinsessur og hún fékk það. Þetta er skömmustulegt,“ sagði Thomas Markle, faðir Meghan, og sjálfskipaður sérfræðingur í vilja ungra stúlkna. Og honum lá fleira á hjarta. 

„Þetta er ein elsta stofnun sögunnar og þau eru að eyðileggja hana. Þau eru að ata hana út, og breyta krúnunni í  sjoppulega Walmart kórónu. Þetta er fáránlegt og þau ættu ekki að vera að þessu,“  segir Thomas Markle.  

Og þó föðurfjölskylda Meghan sé yfirlýsingaglöð í fjölmiðlum, eru þau ekki þau einu. Á flestu í lífi Harrys og nú Meghan, hafa mörg skoðanir og áhuga. 

Og umræðan er ekki alltaf jákvæð. Harry hefur margoft gagnrýnt umfjöllun margra miðla í heimalandinu um Meghan. Hefur sakað suma þeirra um rasisma. 

Megxit verður til

Um leið og vilji Harry og Meghan lá fyrir var búið að nefna gjörninginn. Og líkt og Brexit er notað fyrir úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu er Megxit nú gjarnan notað yfir úrgöngu Meghan og Harry úr konungsfjölskyldunni. Þó þau séu kannski ekki að hætta í fjölskyldunni. 

Það er áhugavert að stalda við þá staðreynd að breytingarnar eru eingöngu kenndar við Meghan. Eins og ákvörðunin hafi annað hvort verið hennar einnar, eða þá að áhrif hennar á Harry séu slík að svona nokkuð hefði aldrei gerst hefði hún ekki komið til sögunnar. 

En stirt samband Harrys við fjölmiðla á sér mun lengri sögu en samband hans og Meghan. Þar vega örlög móður hans þyngst. 

„Það fylgir því að vera hluti af þessari fjölskyldu og embættinu, en í hvert sinn sem ég sé myndavél, í hvert skipti sem ég heyri smellt af, í hvert skipti sem ég sé flass blikka fer ég aftur í tímann. Þetta er versta áminningin um hana,“ sagði Harry í viðtali í fyrra og á þá að sjálfsögðu við móður sína, Díönu prinsessu, sem lést í bílslysi í París í ágúst árið 1997, eftir eltingaleik blaðaljósmyndara. 

Svo hún er ekki eingöngu tilkomin með Meghan gagnrýni Harrys á fjölmiðla. Þó hún hafi kannski ekki minnkað við það heldur. Ýmis konar umfjöllun um Meghan hefur farið fyrir brjóstið á hertogahjónunum, og steinin tók úr þegar Daily Mail birtu  bréf sem Meghan skrifaði til föður síns. Þá fór hún í mál við blaðið, sem varðist með þeim rökum að Meghan væri nú opinber persóna og þyrfti að þola umfjöllun um sig. 

Frændinn með nöfnin sjö

Og nú vilja þau draga sig í hlé. Og eru ekki þau fyrstu í fjölskyldunni sem kjósa það. Frá því að Harry og Meghan upplýstu um fyrirhugaðar breytingar á ráðahag sínum hefur saga Játvarðs langafabróður Harrys oftar en ekki verið rifjuð upp. Og það var hún reyndar líka þegar þau Harry og Meghan giftu sig. 

Því þó þeir hafi aldrei náð að hittast áttu þeir margt sameiginlegt, ekki bara tvö af nöfnum sínum. Harry voru gefin við fæðingu nöfnin Henry Charles Albert David. Tvö þeirra bar Játvarður líka, en það er kannski ekki skrítið því honum voru gefin sjö nöfn við fæðingu. Edward Albert Christian George Andrew Patrick David hljómar meira eins og viðveruskráning í breskum skóla, en það hét hann sem sagt. En nú erum við komin langt út fyrir efni þessa pistils.

epa03030030 British King Edward VIII (C) and US socialite Wallis Simpson (C-R) sightseeing at Trogir near Split, Croatia, sometime in 1936. The 75th anniversary of Edward VIII?s Abdication is marked on 11 December 2011.  EPA/UPPA/PHOTOSHOT UK AND IRELAND OUT
 Mynd: EPA
Játvarður og Wallis Simpson

Sagnfræðingurinn Anne Sebba segir að sannarlega sé samsvörun milli sögu Harrys og langafabróður hans Játvarðs.  Þeir hafi báðir tekið ákvörðun um að líf þeirra yrði betra með konunum sem þeir elska, lausir undan skyldum krúnunnar. 

Það sem er hinsvegar ólíkt í sögunum tveimur er að Harry neyddist ekkert til að velja. Hann mátti vel ganga að eiga Meghan, þó hún hafi, líkt og Wallis Simpson, verið fráskilin. Harry var sömuleiðis ekki konungur í Bretlandi, líkt og Játvarður var í tæpt ár, og verður það líklega seint, verandi sá sjötti í erfðaröðinni. 

Hvað ætla þau svo að fara að gera, Meghan og Harry? 

Aftur leitaði breska ríkisútvarpið, BBC, til sérfróðra um málefni konungsfjölskyldunnar. Meðal möguleika sem velt er upp í þeirri umfjöllun er hvort Harry og Meghan ætli að nýta frægð og fylgjendafjölda sinn á samfélagsmiðlum til að verða áhrifavaldar. Það þykir sérfróðum hins vegar ósennilegt, þó svo að milljónir fylgi þeim á samfélagsmiðlum sé það ekki líklegt að þau nýti frægð sína til að kynna og selja vörur og þiggja greiðslur fyrir. 

Meghan er auðvitað leikkona, og hafði getið sér nokkuð gott orð á þeim vettvangi, meðal annars í sjónvarpsþáttunum Suits, áður en hún gekk að eiga Harry. 

Fyrr á þessu ári var sagt frá því að Meghan hafi samið við Disney um að tala inn á teiknimynd. Í staðin ætti Disney að greiða þóknun í söfnun fyrir fíla, sem ber yfirskriftina Fílar án landamæra. Það getur þó verið að hún þurfi að hætta að gefa vinnuna sína til góðgerðarmála, eigi þau núna að vinna fyrir salti í grautinn sjálf. 

Svo eru það bækunar. Meghan starfaði áður sem pistlahöfundur og hélt úti sinni eigin lífstílsbloggsíðu áður en hún varð hertogaynja. Og svo eru þau líklega ófá sem væru til í að lesa bækur frá þeim Meghan og Harry, miðað við áhugann sem fréttir af þeim vekja. Þá er þeim möguleika velt upp að þau geri sér starfsferil úr góðgerðastarfi, sem þau hafa bæði áhuga á að sinna.

Allt eru þetta býsna sýnileg störf. Það má nefnilega vel velta fyrir sér hvort Harry og Meghan hafi erindi sem erfiði, ef fyrir þeim vakir að losna undan kastljósi fjölmiðlanna. Áðurnefnd frétt um hvernig Meghan heldur á barninu sínu, sem birtist fyrr i vikunni, er kannski ágætt dæmi um það að áhugi fjölmiðla á parinu hefur alls ekki minnkað eftir fréttir af fyrirhuguðum vistaskiptum, nema einmitt síður sé. Svo fréttir eins og þessar verða líklega áfram skrifaðar um Harry og fjölskyldu hans. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot

„Harry prins, yngri sonur Díönu og Karls, varð fimmtán ára í síðustu viku. Harry er lífsglaður piltur og afar stríðinn. Móðir hans sagði eitt sinn að hann myndi verða kvennamaður og faðir hans hefur tekið í sama streng og spáð því að Harry muni með tímanum njóta enn meiri hylli meðal kvenkynsins en Vilhjálmur bróðir hans sem allar konur virðast elska,“ segir í frétt í Degi í september árið 1999. 

Og nú, rúmum tuttugu árum eftir að þessi frétt var skrifuð, erum við enn að fjalla um Harry. Þessi umfjöllun okkar um lífsglaða og stríðna kvennamanninn Harry verður jafnframt ekki sú síðasta. Að biðjast undan athygli getur oftar en ekki kallað á enn meiri athygli. Allavega um stundarsakir. Og þó Harry og Meghan flytji til Kanada eða Bandaríkjanna, gerist bókaútgefendur eða áhrifavaldar, munu Bretaprinsinn og leikkonan að öllum líkindum áfram vera undir smásjá heimsbyggðarinnar. Hvort sem þeim líkar betur eða verr. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV