Megnið af plastinu tengt sjávarútvegi

07.09.2019 - 03:35
Mynd með færslu
 Mynd: ruv.is
Megnið af því plasti sem kemur í veiðarfæri við rannsóknaveiðar Hafrannsóknastofnunar er tengt sjávarútvegi. Stofnunin hefur á undanförnum árum skráð kerfisbundið magn sjáanlegs plasts sem kemur í veiðarfærin. „Mikilvægt er að geta greint uppruna plastsins til að hægt sé að beina sjónum í rétta átt þegar kemur að því að fyrirbyggja að plast berist í hafið,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar um rannsóknir á plasti í hafi.

Algengast sé að finna spotta af ýmsu tagi og netadræsur. Þá er einnig algengt að brot úr fiskikörum og slíku finnist í miklum mæli. Rusl af öðrum uppruna en sjávarútvegi kom í minna mæli í veiðarfæri en var í þó nokkrum þéttleika á sumum stöðum.

Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun

Á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að á seinustu tuttugu og fimm árum hafi plastframleiðsla í heiminum rúmlega þrefaldast og ef áfram haldi sem horfi muni plast í heimshöfunum vega meira en fiskistofnar árið 2050. Áhrifin sem plast hefur á umhverfi sjávar séu bæði margbreytileg og afdrifarík.

„Plastúrgangur endar að stórum hluta í heimshöfunum og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarlífverur. Þær geta fest sig í gömlum netum, tógum eða plastfilmum, kafnað eða étið ýmis konar plast í misgáningi. Lítið er enn sem komið vitað um það hvernig örplast berst um flókinn fæðuvef heimshafanna en rannsóknir hafa sýnt að plastagnir hafa áhrif á ýmsar sjávarlífverur meðal annars á efnaupptöku á frumustigi, eru bólguvaldar, valda minnkun á fæðunámi og hafa áhrif á innkirtlastarfsemi,“ segir á vef Hafrannsóknastofnunar. 

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi