Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mega heita Neró, Snekkja og Manasína

09.11.2016 - 11:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mannanafnanefnd hefur samþykkt eiginnöfnin: Neró, Snekkja, Manasína, Skjaldmey, Arabella og Lyngþór og millinöfnin Reyðfjörð og Veigu. Hins vegar var beiðni um eiginnafnið Sonyu hafnað.

Í úrskurði um eiginnafnið Neró segir mannanafnanefnd að í því sambandi reyni hugsanlega á skilyrði í lögum um mannanöfn þar sem segir að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Neró sé heiti alræmds rómversks keisara sem segir meðal annars um á Vísindavefnum:

„Í kjölfar eldsins hóf Neró ofsóknir á hendur kristnum mönnum í Rómaveldi. Af þeirri ástæðu hefur Neró fengið hörð eftirmæli og verið líkt við And-Krist.“ 

Mannanafnanefnd bendir hins vegar á að ólíklegt sé að nafnið hafi í nútímamáli jafn illt orð á sér og að fornu. Fjarlægur eða óviss möguleiki á því að nafn verði nafnbera til ama sé ekki nóg til þess að hafna því. Eiginnafnið Neró verði því látið njóta vafans enda taki það íslenskri beygingu í eignarfalli, Nerós.