Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mega ekki sleppa kópum út í náttúruna

30.12.2019 - 09:38
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Tveir selkópar sem hafa verið í Búðardal síðustu tvö ár með það að markmiði að sleppa þeim út í náttúruna eru nú komnir aftur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn þar sem þeir komu í heiminn.

Kóparnir voru fluttir í Búðardal 2017 þar sem Svavar Garðarsson tók þá að sér og gerði það að markmiði að sleppa þeim út í náttúruna í samráði við húsdýragarðinn.

Samkvæmt lögum um velferð dýra er hins vegar óheimilt að sleppa dýrum sem eru alin í haldi manna út í náttúruna. Ekki veittist undanþága í tilfelli kópanna tveggja.

Svavar Garðarsson segir að aðstaðan í Búðardal hafi ekki verið gerð með það í huga að kóparnir dveldu þar jafn lengi og þeir gerðu. Fyrir vikið varð að flytja kópana aftur í Húsdýragarðinn sem var gert á dögunum.

Í selalauginni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum eru nú fjórir selir og þar af einungis ein urta sem komin er til ára sinna. Hinir þrír eru brimlar sem komu í heiminn í garðinum á síðustu árum. Kóparnir verða áfram í húsdýragarðinum.

Telur að hægt væri að sleppa kópum

Þorkell Heiðarsson, líffræðingur og verkefnastjóri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, telur mögulegt að sleppa kópum út í náttúruna.

„Í sjálfu sér værir ekkert því til fyrirstöðu eða óskynsamlegt við það að sleppa kópum út í náttúruna sem eru á réttum stað í sínum lífsferli til að bjarga sér í náttúrunni. Hins vegar, þegar kópar hafa verið geymdir lengi í haldi manna og fengið þá þjónustu sem því fylgir þá er ekki sjálfgefið að það sé hægt að sleppa þeim aftur út í náttúruna og að þeir spjari sig þar,“ segir hann.

Selurinn talinn í bráðri hættu

Staða selsins hefur breyst frá lokum síðustu aldar þegar markvisst var stefnt að því að fækka sel við landið. Núna er selurinn á válista og talinn þar í bráðri hættu. Selveiðar voru þá nýlega bannaðar honum til verndunar.

Þorkell telur þörf á að gefa færi á því að sleppa dýrum sem alin eru í haldi manna út í náttúruna.

„Ég held það væri allavega mikilvægt að finna einhvers konar undanþáguákvæði þannig að það sé hægt að leggja mat á svona mál,“ segir hann.