Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mega ekki setja upp örsláturhús

25.11.2019 - 22:40
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Hugmyndir um örsláturhús eða heimasláturhús, þar sem bændur geta selt milliliðalaust afurðir úr eigin bústofni, rúmast ekki innan gildandi löggjafar eða alþjóðlegra skuldbindinga. Þetta segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í svari við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, varaþingmanns Vinstri-grænna.

Bjarni spurði Kristján hvort að hann hygðist breyta reglum um örsláturhús og auka frelsi sauðfjárbænda til að slátra eigin lömbum og selja beint til neytenda. 

Í svari ráðherra segir að mikilvægt sé að auka verðmætasköpun hjá bændum. Ein þeirra tillagna sem hefur verið skoðuð síðustu mánuði snýr að örsláturhúsum, eða heimasláturhúsum, svo bændur geti selt afurðir af lömbum sínum milliliðalaust. „Eftir að samráð var haft við nágrannaþjóðir, svo sem Noreg, Þýskaland og Finnland, og skoðun á viðkomandi löggjöf sem gildir á sviðinu var það niðurstaðan að sú útfærsla af örsláturhúsi eða heimasláturhúsi sem var til skoðunar rúmast ekki innan löggjafarinnar og alþjóðlegar skuldbindinga Íslands,“ segir ráðherra. Hann vísar meðal annars til reglugerða Evrópþingsins og Evrópuráðsins um opinbert eftirlit með dýraafurðum sem ætlaðar eru til manneldis. Krafa er gerð um skoðun opinbers dýralæknis fyrir og eftir slátrun. 

Ráðherra bendir hins vegar á að í reglugerð um lítil matvælafyrirtæki eru sérstök ákvæði um lítil sláturhús. Reglugerðin á að auðvelda sláturhúsum að uppfylla kröfur um hollustuhætti og eftirlits. Lítil reynsla er þó komin á framkævmd reglugerðarinnar en Kristján Þór telur að þar geti falist ákveðin sóknarfæri til aukinnar verðmætasköpunar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV