Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mega ekki birta fermingarmyndir í óþökk barna

Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Færst hefur í aukana að ósátt börn leiti til umboðsmanns barna vegna mynda sem foreldrar þeirra hafa birt af þeim á samfélagsmiðlum. Persónuvernd hefur úrskurðað í einu slíku máli.

Fjölmargar fyrirspurnir

Fermingarmyndir, myndir af einkunnaskjali eða vandræðalegar smábarnamyndir. Tilefni kvartana og fyrirspurna eru af ýmsum toga. „Það koma fjölmargar fyrirspurnir til okkar og hafa komið á síðustu misserum frá börnum á öllum aldri, þar sem þau eru að velta fyrir sér hvaða rétt þau hafa, hvort foreldrar megi birta það sem þau vilja, bæði myndir og annað efni,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Embættið hefur gefið út leiðbeiningar um myndbirtingar fyrir foreldra.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Salvör Nordal.

Börn geta sótt rétt sinn

Svarið við fyrirspurnum barnanna sem hafa leitað til umboðsmanns er nei, það má ekki birta hvað sem er. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir ný persónuverndarlög og persónuverndarlög yfir höfuð eiga að vernda rétt barna. „Þannig að börn geti sótt rétt sinn þó maður vilji helst ekki að þau þurfi að fara þá leið. Þess vegna skiptir svo miklu máli að foreldrar og forráðamenn viti að börnin þeirra eiga að hafa skoðun á myndbirtingum og efni sem foreldrar tjá sig um á samfélagsmiðlum fyrir hönd barna og um börn sín.“ 

Mynd með færslu
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Mynd: RÚV - Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Helga Þórisdóttir.

Þurfti að fjarlægja opnumyndina

Eitt svona mál hefur komið upp hér á landi. „Þar sem barn í kringum fermingaraldur var ósátt við fermingarmynd sem var opnumynd á Fésbókarsíðu föður þess. Niðurstaðan var sú að hann þurfti að hlusta á skoðun og vilja barnsins,“ segir Helga. 

Móðir dæmd í Danmörku

Fleiri svona mál hafa komið upp erlendis, Helga segir að nýlega hafi móðir í Danmörku verið dæmd fyrir brot á hegningarlögum þar í landi fyrir að tjá sig um heilsufar dóttur sinnar á samfélagsmiðlum. „Það sem fer inn á netið fylgir börnum jafnvel alla ævi og þegar foreldrar eru að birta myndir af börnunum sínum þurfa þeir að huga að því hvort börnin séu í viðkvæmum aðstæðum og hvað þau séu að tjá sig um, hvort verið sé að ræða viðkvæmar heilsufarsupplýsingar.“

Ung börn geti vel haft skoðanir á myndbirtingum

Mynd með færslu
 Mynd:

Í lögum og reglum er ekki að finna nein sérstök ákvæði um birtingu myndefnis á netinu en það eru í gildi almennar reglur og það þarf að fara að persónuverndarlögum. Persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar og börn eiga rétt til friðhelgi einkalífs. Á vef persónuverndar segir að börn eigi rétt á því að tjá skoðanir sínar og því sé einfaldast fyrir foreldra að óska eftir samþykki þeirra áður en þeir birta myndir af þeim, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Ung börn geti vel haft skoðanir. Foreldrar og forráðamenn þurfi að virða einkalíf barna og fara varlega í að birta myndir af börnum á opinberum vettvangi, aldrei megi sýna þau á niðrandi eða óviðeigandi hátt, nakin, klæðalítil eða í erfiðum aðstæðum. Þá sé brýnt að hafa í huga að allt sem birtist á netinu, jafnvel á lokaðri síðu, geti dreifst víðar og það geti haft áhrif á líf barnsins með ófyrirséðum hætti, þá er brýnt fyrir foreldrum að láta aldrei GPS-hnit fylgja myndum af börnum sínum þannig að óviðkomandi verði ekki kunnugt um staðsetningu þeirra.

Ekki alltaf sammála um hvað teljist saklaust eða krúttlegt

„Ég held að margir foreldrar geri sér grein fyrir þessu en kannski er það bara þannig að við lítum oft á þessa samfélagsmiðla sem tiltölulega saklaust fyrirbæri og eitthvað sem okkur finnst voðalega krúttlegt í dag getur verið að börnunum finnist ekkert sérstaklega krúttlegt og kannski ekki krúttlegt eftir einhvern tíma, við vitum ekki alltaf í hvaða aðstæðum börn eru og hvernig þau upplifa hlutina, þess vegna er þetta samtal svo mikilvægt“ segir Salvör. 

Mikilvægt að staldra við

Salvör segir mikilvægt að foreldrar staldri við, hugi að því hvernig aðrir gætu notað þetta efni í framtíðinni. „Það er verið að misnota efni á netinu, efnið sem er sett út á netið lifir áfram, væntanlega um ókomna tíð, það er í eigu annarra en okkar, allt eru þetta atriði sem við eigum að hugsa um.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV