Vísir sagði frá því í dag að lögregla hefði verið kölluð að líkamsræktarstöð World Class á Seltjarnarnesi vegna deilna tveggja kvenna um sjálfu sem önnur þeirra tók í búningsherbergi stöðvarinnar. Hin konan sást á myndinni og var ekki sátt við það.
Helga sagði í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag að grundvallarreglan væri sú að ef einstaklingur vill opinbera allt um sitt líf þá má hann það. „Þá er það svokallað samþykki samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni og þá er það bara þannig. En þegar þú ert farinn að birta líf annarra þá getur þú hreinlega þurft að sækja um sérstakt og skýrt samþykki til þess. Nú persónuverndarlöggjöf í Evrópu sem tekur gildi í maí 2018 er einmitt að taka á þessu.“
Þeir sem telja a sér brotið geta byrjað á að ræða við þann sem birti myndina. Verði viðkomandi ekki við því getur fólk leitað til Persónuverndar. Persónuvernd fékk 1.685 mál inn á sitt borð í fyrra og sneru sum þeirra beint að þessu. Persónuvernd leitar þá andsvara frá þeim sem birti myndina. Þá eru bæði dæmi um að fólk taki myndina af netinu eða samfélagsmiðlum og að Persónuvernd kveði upp úrskurð.
Samkvæmt nýrri löggjöf verður hægt að sekta þá sem brjóta gegn friðhelgi einkalífs annarra, sagði Helga. „Ef stór fyrirtæki eru að brjóta á réttindum einstaklinga til friðhelgis einkalífs og persónuverndar er hægt að sekta þau um allt að fjögur prósent af heildarársveltu á heimsmarkaði.“