Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mega deila öllu um sjálfa sig en ekki aðra

15.02.2017 - 20:46
Mynd: RÚV / RÚV
Dæmi eru um að fólk hafi leitað til Persónuverndar vegna mynda sem teknar voru af því við viðkvæmar aðstæður og birtar opinberlega. Þetta segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Hún segir að þó fólk megi deila hverju sem er um eigið líf gildi aðrar reglur um það fari fólk að birta eitthvað það sem geti falið í sér brot á friðhelgi einkalífs fólks.

Vísir sagði frá því í dag að lögregla hefði verið kölluð að líkamsræktarstöð World Class á Seltjarnarnesi vegna deilna tveggja kvenna um sjálfu sem önnur þeirra tók í búningsherbergi stöðvarinnar. Hin konan sást á myndinni og var ekki sátt við það. 

Helga sagði í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag að grundvallarreglan væri sú að ef einstaklingur vill opinbera allt um sitt líf þá má hann það. „Þá er það svokallað samþykki samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni og þá er það bara þannig. En þegar þú ert farinn að birta líf annarra þá getur þú hreinlega þurft að sækja um sérstakt og skýrt samþykki til þess. Nú persónuverndarlöggjöf í Evrópu sem tekur gildi í maí 2018 er einmitt að taka á þessu.“

Þeir sem telja a sér brotið geta byrjað á að ræða við þann sem birti myndina. Verði viðkomandi ekki við því getur fólk leitað til Persónuverndar. Persónuvernd fékk 1.685 mál inn á sitt borð í fyrra og sneru sum þeirra beint að þessu. Persónuvernd leitar þá andsvara frá þeim sem birti myndina. Þá eru bæði dæmi um að fólk taki myndina af netinu eða samfélagsmiðlum og að Persónuvernd kveði upp úrskurð.

Samkvæmt nýrri löggjöf verður hægt að sekta þá sem brjóta gegn friðhelgi einkalífs annarra, sagði Helga. „Ef stór fyrirtæki eru að brjóta á réttindum einstaklinga til friðhelgis einkalífs og persónuverndar er hægt að sekta þau um allt að fjögur prósent af heildarársveltu á heimsmarkaði.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Getur skipt máli hvar myndin er tekin

„Í lögum og reglum er ekki að finna sérstök ákvæði um birtingu ljósmynda og myndbanda á netinu en það gilda um þetta almennar reglur,“ sagði Helga aðspurð hvaða reglur giltu um myndbirtingar af fólki. „Ef það er hægt að greina einstaklinga í birtu myndefni, til dæmis á ljósmyndum, þá erum við dottin inn í umgjörðina á Persónuverndarlögum.“ Helga sagði að meta þyrfti hvert tilefni sjálfstætt. Það sneri að gildi upplýsinga og umfjöllunarefninu. Þannig þyrfti væntanlega ekki leyfi fyrir myndatöku af fólki á ferð á Laugavegi, til dæmis ef einn einstaklingur væri ekki myndefnið heldur fjöldinn. „Ef hins vegar við erum farin að tala um birtingar af einhverjum tilteknum einstaklingi þá í rauninni er þetta svigrúm til að gera haldið áfram að birta myndina án þess að fá samþykki orðið dálítið þrengra.“ Þetta eigi til dæmis við ef aðstæður sem eru myndaðar eru viðkvæmar eða myndbirtingin getur verið meiðandi. Það getur til dæmis skipt máli hvort mynd er tekin af fáklæddum einstaklingi í búningsklefa eða úti í sundlaug.

Fólk getur andmælt birtingu myndefnis ef það hefur lögmætar og knýjandi ástæður, samkvæmt löggjöfinni. Þá er orðið erfiðara að birta myndina, sagði Helga. „Stundum er gott að hafa lagaramma en stundum má eiginlega segja að þess þurfi kannski ekki. Það gefur eiginlega má segja augaleið að það að taka mynd af einstaklingi, til dæmis á nærklæðum einum klæða og ætla að fara að birta slíka mynd á vef fyrir 30 þúsund einstaklinga, þá þarftu að sjálfsögðu að sinna því að einstaklingurinn vilji ekki að myndin fari þangað. Það er alveg ljóst.“ Grunnreglan er sú að fá leyfi fyrir myndbirtingunni, sagði Helga. Hún sagði að sá sem ákveður að birta myndina á samfélagsmiðli beri ábyrgð á myndbirtingunni.

Fólk þarf að passa sig

Talið barst að samtölum fólks á opinberum stöðum, svo sem kaffihúsum. Tæknibyltingin og möguleikarnir til að útvarpa hlutum og atburðum getur falið í sér brot á friðhelgi einkalífs fólks, sagði Helga. „Fólk þarf kannski líka að passa hvað það opinberar og hvar. Hvar ræðirðu hvaða hluti? Fólk verður að gera sér að það er hægt að taka upp samtöl einstaklinga í mun ríkari mæli en var. Þess vegna er verið að gjörbreyta persónuverndarlöggjöfinni í Evrópu. Það er verið að styrkja rétt einstaklinga til að ráða yfir sínum eigin upplýsingum.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV