Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Meðferð lögbannsmála verði hraðari

05.03.2020 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur birt í samráðsgátt frumvarp sem er ætlað að hraða málsmeðferð þegar sýslumaður setur lögbann á umfjöllun fjölmiðla. Markmiðið með frumvarpinu er að málsmeðferð hjá sýslumanni verði skýrari og einfaldari.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að þegar sýslumaður fær beiðni um lögbann við birtingu efnis skuli ætíð lögð fram bráðabirgðatrygging. Þá er lagt til að frestir við meðferð sýslumanns verði takmarkaðir eins og hægt er og þeir einungis veittir í undantekningartilvikum. Þá er lagt til að staðfestingarmál, sem höfðuð eru í kjölfar lögbanns, fái flýtimeðferð eftir því sem við á. Auk þess eru lagðar til strangari bótareglur í þessum tegundum mála, og dómara heimilað að dæma bætur að álitum vegna þess tjóns sem varð við það að birting efnis var hindruð vegna lögbanns eða beiðni um það.

Réttarfarsnefnd skrifaði frumvarpið og hafði til hliðsjónar tillögur nefndar, undir forystu Eiríks Jónssonar landsréttardómara, sem fjallaði um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar- og fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Við vinnu nefndar Eiríks skapaðist töluverð umræða um tvö mál þar sem sýslumaður setti lögbann á fjölmiðlaumfjöllun, en dómstólar staðfestu ekki ákvörðun sýslumanns. Annars vegar er þar um að ræða umfjöllun Fréttablaðsins um tölvupósta Jónínu Benediktsdóttur í Baugsmálinu. Hins vegar umfjöllun Stundarinnar um Glitnisskjölin, þar sem viðskipti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og fjölskyldu hans komu við sögu.