Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Með öruggan meirihluta samkvæmt útgönguspám

12.12.2019 - 22:10
epa07795130 Britain's Prime Minister Boris Johnson waits to meet with Japanese Prime Minister Shinzo Abe (unseen) for their bilateral talks during the G7 summit in Biarritz, France, 26 August 2019. The G7 Summit runs from 24 to 26 August in Biarritz.  EPA-EFE/ANDREW PARSONS / POOL
 Mynd: ANDREW PARSONS - EPA
Breski Íhaldsflokkurinn, undir forystu Borisar Johnsons, bætti verulega við sig í þingkosningunum í dag, samkvæmt útgönguspám og fær 368 þingsæti af 650. Það þýðir að flokkurinn væri með hreinan meirihluta. Verkamannaflokkur Jeremy Corbyn missir mikið fylgi, 71 þingsæti. Flokkurinn fær nú, samkvæmt útgönguspám, 191 þingsæti. BBC, breska ríkisútvarpið, greindi frá niðurstöðunni klukkan 22:00.

Skoski þjóðarflokkurinn, undir forystu Nicola Sturgeon, bætir verulega við sig, 20 þingsætum, og er með 55, samkvæmt spánni. Þess má geta að Skotland er með 59 þingsæti.

Útgönguspáin var gerð í samstarfi BBC, Sky og ITV og voru 20.000 manns spurð að því í dag hvern þau hafi kosið. Útgönguspár í Bretlandi hafa þótt áreiðanlegar og gefa góða vísbendingu um niðurstöður þingkosninga. 

Frjálslyndir Demókratar, undir forystu Jo Swinson, bætir við sig einu þingsæti og fær 14, samkvæmt útgönguspánni. 

Á breska þinginu eru 650 þingsæti. Kjördæmin eru sömuleiðis 650 og eru einmenningskjördæmi. Það þýðir að einn þingmaður kemur úr hverju kjördæmi, sá sem fær flest atkvæði. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að verði þetta niðurstaðan sé þetta stærsti sigur Íhaldsflokksins síðan 1987 þegar Margaret Thatcher hóf sitt síðasta kjörtímabil.